Bensínið ódýrast á Vestfjörðum
Ódýrasta bensínið á Íslandi í dag er á Vestfjörðum. Hægt er að fá bensínlítrann kr. 192,40 t.d. á Ísafirði, Bolungarvík og Súðavík. Þá er orðinn allnokkur verðmunur á bílaeldsneyti á annarsvegar sjálfsafgreiðslustöðvum og hins vegar á sjálfsafgreiðsludælum venjulegu bensínstöðvunum á höfuðborgarsvæðinu eða þetta átta til níu krónur á lítrann.
Algengt bensínverð á sjálfsafgreiðslustöðvum Orkunnar og ÓB á höfuðborgarsvæðinu er kr. 195-196. Á sjálfsafgreiðsludælum bensínstöðva N1, Skeljungs og Olíss er verðið hinsvegar 202-204 krónur.
Hjá Atlantsolíu kostar bensínlítrinn yfirleitt kr. 202,60. Félagsmenn FÍB sem eru með dælulykil FÍB og Atlantsolíu fá lítrann fjórum krónum ódýrari eða á kr. 198,60 á öllum stöðvum Atlantsolíu nema einni sérvalinni stöð þar sem lítrinn kostar sex krónum minna eða kr. 196,60.
Þau afsláttarkjör sem félagsmenn FÍB njóta hjá Atlantsolíu eru algerlega klippt og skorin á þann hátt að einungis er um afslátt í beinhörðum peningum að ræða. Þar tíðkast engin vildarpunktasöfnun með bensínkorti eða -lykli sem nýtist upp í kaup á einhverskonaar varningi, oftast með einhverskonar takmörkunum eins og t.d. á gildistíma þessara söfnunarpunkta. Þessir söfnunarpunktar eru oft metnir á þetta 2-3 krónur á lítrann. Með ítrasta velvilja og sanngirni og kannski smá heppni í bland má því í stöku tilfellum fá þá niðurstöðu að munur frá hæsta til lægsta eldsneytisverðs geti numið hátt í 20 kr. á lítrann.
En allt um það þá er núverandi munur á eldsneytisverði með því mesta sem sést hefur hér á landi. Hagstæðasta eldsneytisverðið er sem fyrr segir á norðanverðum Vestfjörðum. Það sem er einnig sérstakt þar er að það er sama verð er hjá N1 á Ísafirði og Orkunni eða 192,50 krónur á lítra af bensíni. Algengasta verð hjá N1 er 204,20 krónur þannig að munurinn er 11,70 krónur á lítra. Þá er það athyglisvert að flutningskostnaður á eldsneytinu frá uppskipunarhöfninni í Reykjavík til Vestfjarða skuli ekkert hafa að segja í útsöluverðinu.