Bensínlítrinn kostar 100 krónum meira í dag en fyrir ári
Bensín fyrir tíu þúsund krónur dugði ökumanni jepplings langleiðina frá Reykjavík til Egilsstaða í fyrra. Nú yrði tankurinn tómur skammt frá Akureyri. Ökumaður jepplings, sem eyðir sjö lítrum á hundraðið og ekur á löglegum hraða, kemst fyrir tíu þúsund króna áfyllingu 161 kílómetra styttra í dag en fyrir ári. Bíllinn kæmist litlu lengra en til Akureyrar fyrir tíuþúsundkallinn, eða að Hálskirkju. Fyrir ári hefði bíllinn komist langleiðina að Egilsstöðum, í Jökuldalinn. Þetta sýna útreikningar FÍB fyrir Fréttablaðið vegna eldsneytishækkana undanfarið.
Miðað er við að ferðalagið hefjist við skrifstofur blaðsins í 101 Reykjavík. Fyrir tíuþúsundkall hefði bíllinn komist 567 kílómetra í fyrra á jepplingnum. Nú hefði niðurstaðan orðið 406 kílómetra. Verð á bensíni slagar víða í 350 krónur og fór hærra í síðustu viku.
Ef bensín er sett á sama bíl fyrir fimmþúsundkall endar ferðalagið við Víðigerði í Vestur-Húnavatnssýslu. Í fyrra hefði jepplingurinn hins vegar farið langt með að ná dælunni í Varmahlíð í Skagafirði en sennilega orðið bensínlaus á Vatnsskarðinu.
Lítraverðið á bensíni er að sögn Runólfs Ólafssonar, framkvæmdastjóra FÍB, um 100 krónum hærra í dag en fyrir ári. Fyrir 10.000 krónur tapast 161 km í dag miðað við bensínverð fyrir sléttu ári. 161 kílómetri er frá 101, Reykjavík að vegamótum þjóðvegar 1 og vegar 68, vestan Húnaflóa við gamla Brúarskála.
Innrásin í Úkraínu hefur aukið verðbólgu um allan heim, sumpart tengt Covid, umturnað heimsmarkaðsverði á jarðefnaeldsneyti sem hefur leitt til mikils kostnaðarauka fyrir þá sem þurfa að aka mikið, vinnu sinnar vegna.
FÍB hefur kallað eftir að íslenska ríkið minnki álögur í verði bensínlítra en rétt um 50 prósent af verðinu ganga til ríkisins í formi ýmissa gjalda.
Í hádegisfréttum á RÚV veltir Runólfur Ólafsson því fyir sér hvort olíufélögin hiki við að lækka verðið þar sem stærsti ferðamánaður ársins fer í hönd.
„Ef við horfum á fyrirmyndina frá Danmörku þá hefur bensínverð frá því að það var hæst í júnímánuði og þar til núna lækkað um 11 til 12 krónur. Á meðan er verðið annars vegar óbreytt frá miðjum mánuði hér og hins vegar er núna vísbending um það í morgun að allavega eitt olíufélagið sé farið í hækkunarferli," sagði Runólfur í samtalinu við RÚV.
Runólfur sagði ennfremur að hver króna í aukna álagningu á eldsneyti er fljót að skila sér í bækur félaganna því við erum þarna að tala um neysluvöru sem fer út í miklu magni. Það er vont að þeir sæti lagi í svona árferði og fylgi ekki verðlagningunni niður eins og þeir fylgja henni upp.