Bensínlítrinn rúmum 16 krónum dýrara en í gærmorgun
Eins og vænta mátti í gærkvöldi varð frumvarp ríkisstjórnarinnar um auknar álögur á rekstur heimilisbílsins og meðfylgjandi þyngda vísitölutengda skuldabyrði heimilanna að lögum á mettíma í gærkvöldi. Bifreiðagjöldin eru því í dag 10% hærri en þau voru í gær. Bensínið sem í gærmorgun kostaði í sjálfsafgreiðslu á venjulegri bensínstöð kr. 164,90 kostar í dag 181,30.
Stóru olíufélögin virðast hafa sætt færis og hækkað eldsneytisverð um miðjan dag í gær þegar fréttir bárust af fyrirhuguðu lagafrumvarpi um herta gjaldtöku á hendur eigendum heimilisbílsins. Bensínið kostaði í gærmorgun í sjálfsafgreiðslu yfirleitt 164,90 eins og fyrr er sagt, en upp úr miðjum degi var verðið orðið um fjórum krónum hærra og komið í 168,80. Ofan á það er svo stjórnvaldshækkunin nú lögst og verðið komið í 181,30 eins og áður segir.
Dísilolían kostaði í gærmorgun kr. 163,80. Um miðjan gærdaginn hækkaði verð hennar upp í kr. 165,40. Eftir stjórnvaldshækkun alþingis kostar dísilolían í dag kr. 171,60 í sjálfsafgreiðslu á hefðbundnum bensínstöðvum.