Bensínstöðvum fækkar um þriðjung í Reykjavík
Borgarráð hefur samþykkt að ganga til samninga við rekstraraðila bensínstöðva um fækkun bensínstöðva. Skrifað var undir samning við Festi og Krónuna, Olíuverslun Íslands og Haga og Skeljung um nýtt hlutverk bensínstöðvalóða í þeirra eigu. Olíufélögin munu sjá um framtíð eða sölu sinna lóða en með það fyrir augum að lóðirnar nýtist undir íbúðir og atvinnuhúsnæði.
Á fimmta tug bensínstöðva eru í Reykjavík og þær búa yfir landrými sem gæti rúmað allt að 1400 íbúðir. Með nýrri samþykkt, er í upphafi horft til 12 stöðva í íbúðarhverfum víðs vegar um borgina þar sem reisa má a.m.k. 500 íbúðir. Búist er við að uppbygging hefjist á næstu árum.
Á lóðunum eru hugmyndir um að þar rísi íbúðarhúsnæði með eða án atvinnuhúsnæðis á jarðhæð. Með fækkun stöðvanna fækkar eldsneytisstöðvum í íbúðabyggð en stöðvar verða áfram starfræktar fyrst og fremst við stærri umferðargötur. Jarðefnaeldsneytisdælum fækkar úr 109 í 73 eða um 33%.
Til viðbótar við lóðir á neðangreindum bensínstöðvum er samið við Haga um fjölorkustöð á Esjumelum og uppbyggingu á lóð við Stekkjarbakka 4-6 þar sem mögulega verða til uppbyggingarmöguleikar fyrir um 200-300 íbúðir.
Stöðvarnar, sem nú er samið um eru;
- Álfheimar 49
- Álfabakki 7
- Egilsgata 5
- Ægisíða 102
- Hringbraut 12
- Stóragerði 40
- Skógarsel 10
- Elliðabraut 2
- Rofabær 39
- Birkimelur 1
- Skógarhlíð 16
- Suðurfelli 4