Bensínstríð skollið á á höfuðborgarsvæðinu
Verð á eldsneyti hefur lækkað mikið á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu í dag. Í morgun reið Atlantsolía á vaðið og lækkaði eldsneyti í rúmlega 211 krónur lítrann á stöð sinni á Sprengisandi í Reykjavík.
Verðið er tæpum tuttugu krónum lægra á lítrann en á þeim bensínstöðvum sem bjóða upp á næstlægasta verðið. Ekki þarf dælulykil frá Atlantsolíu til að fá þetta verð því það stendur öllum viðskiptavinum til boða. Eftir hádegið fylgdu Dælan og Orkan í kjölfarið.
Um klukkan 15 í dag kostaði bensínlítrinn 211,20 krónur á afgreiðslustöðvum Dælunnar. Verð á dísil-lítranum var hins vegar 201,80 krónur. Lítrinn af bensíni kostaði 209,90 krónur og dísillítrinn 200,90 krónur.
Á afgreiðslustöðvum Orkunnar á Dalvegi og á Reykjavíkurvegi kostaði bensínlítrinn 211,30 krónur og lítrinn af dísil 201,90 krónur.
Costco hristi verulega upp á þessum markaði þegar fyrirtækið opnaði eldsneytissöluna við Kauptún fyrir um tveimur árum síðan. Frá byrjun hefur Costco boðið meðlimum sínum hagstæðara verð á bensíni og dísilolíu en aðrir eldsneytissalar. Neytendur hafa tekið Costco opnum örmum og það hefur verið stöðug röð við dælurnar frá opnun.