Benz boðar pallbíl

Yfirlýsing Benz-forstjórans Dieter Zetsche um að væntanlegur sé meðalstór Benz pallbíll fyrir lok þessa áratugar, þótti mörgum koma sem þruma úr heiðskíru lofti. Nýi pallbíllinn verður heimsbíll sem þýðir að tæknilega verður hann gjaldgengur á bílamörkuðum bæði austan og vestan hafs. Burðarþol bílsins verður kring um eitt tonn.

Pallbílar hafa verið og eru mjög vinsælir í Ameríku, Asíu og Eyjaálfu en Evrópumenn hafa verið nánast áhugalausir um þá fram að þessu, nema ef vera skyldu Íslendingar. Evrópsku bílaframleiðendurnir hafa því að mestu sleppt því að framleiða pallbíla nema Volkswagen sem framleiðir pallbílinn Amarok, en þó ekki í Evrópu, heldur í Argentínu. Þeir Evrópumenn sem hafa viljað eignast pallbíla hafa keypt japanska, aðallega Toyota Hilux en einnig Mitsubishi L200  


Bandaríski bílamarkaðurinn er lang stærstur í pallbílunum og lengst af hefur Ford F 150 verið vinsælasti pallbíllinn þar og reyndar um leið vinsælasti bíllinn í Bandaríkjunum.  En síðustu árin hafa japönsku framleiðendurnir sótt hart inn á þennan markaðsgeira, sérstaklega Toyota með meðalstóra pallbílinn (samkv. Bandarískum kvarða) Toyota Tundra. Tundra er nú orðinn mest selda Toyotagerðin í Bandaríkjunum veitir heimamerkjunum Ford, GM og Chrysler mjög harða samkeppni.

Pallbílamarkaðurinn er einnig mjög stór í Thailandi, S. Afríku, Ástralíu og S. Ameríku. Inn á þessa markaði hyggst Mercedes sækja með nýja pallbílinn, en einnig og ekki síður vilja Mercedes menn sækja fast inn á Evrópumarkaðinu og koma Evrópubúum á bragðið með pallbílana.  Nýi Benz pallbíllinn verður hannaður og byggður á grunni hjá Mercedes en ekki fenginn frá öðrum framleiðanda með áfestri Benz-stjörnu á húddinu, eins og sendibíllinn Chevrolet Citan sem í raun er bara Renault Kangoo.