Benz-forstjórinn gagnrýnir mengunarkröfur til bíla

http://www.fib.is/myndir/Dieter-Zetsche-guitar.jpg

Dieter Zetsche forstjóri Daimler AG er einn þeirra stórforstjóra í bílaiðnaðinum sem gagnrýna nýju reglurnar um útblástur frá bílum sem taka senn gildi í Evrópu. En hann gagnrýnir einnig harðlega ósamræmi í þeim kröfum sem gerðar eru annarsvegar til bíla og bílaiðnaðar og til annarra mannlegra umsvifa hins vegar.

Á ráðstefnu Automotive News Europe í Genf nýlega sagði Zetsche það sérkennilegt að bílaiðnaðurinn þurfi að sæta harðari reglum um útblástur en ýmsir aðrir sem menga andrúmsloftið. Á heimsvísu gefi bílarnir nefnilega aðeins frá sér um það bil einn tíunda hluta þess koldíoxíðs sem verður til við það að brenna jarðefnaeldsneyti.

Zetsche fjallaði síðan um þær mismunandi kröfur sem einstök lönd gera um útblástur koldíoxíðs frá bílum. Í Evrópu á meðalútblástur koldíoxíðs frá bílum að lækka niður í 120 grömm á kílómetra fyrir árið 2012. Af því eiga 10 síðustu grömmin að nást m.a. með því að bæta lífrænu eldsneyti saman við jarðefnaeldsneytið. -Það þýðir, sagði Cetsche, að bílaiðnaðinum er gert að koma CO2 útblæstri bíla niður í 130 grömm á kílómetra að meðaltali. Engar reglur um einhverskonar bónusa eða álögur vegna þyngdar hafi hins vegar verið ákveðnar.

Í Bandaríkjunum hefur ríkisstjórnin krafist þess að bílaframleiðendur lækki CO2 útblástur bílanna um 25% til ársins 2015. Zetsche minnti á að einstök ríki Bandaríkjanna geti því til viðbótar sett sínar eigin reglur um útblásturinn og sum gert það, ekki síst Kalifornía.
.
„Verkfræðingum okkar finnst stundum eins og þeir séu neyddir til að leika evrópskan fótbolta á hafnaboltavelli eftir reglum sem gilda um súmóglímu,“ sagði Zetsche. Hann sagði auk þess að hann vonaðist til að Bandaríkjamenn færu að flokka bíla eftir þyngd og raða í þyngdarflokka og hversu mikið hver þyngdarflokkur mætti að meðaltal gefa frá sér af CO2 í grömmum á ekinn kílómetra. Japanir hefðu fyrir löngu tekið upp slíka flokkun og hún stæði til hjá Evrópusambandinu.

Zetsche kvaðst einnig vonast til að sala dísilbíla aukist í Bandaríkjunum því með því móti einu gæti þjóðin gert sig minna háða olíunni. „Ef einungis einn þriðji hluti bíla í Bandaríkjunum yrði búinn nýjustu dísilvélatækni myndu Bandaríkin ekki þurfa að flytja inn einn einasta olíudropa frá Saudi Arabílu,“ sagði Dieter Zetsche.