Benz og Toyota selja Tesla hlutabréf
Bæði Toyota og Daimler, móðurfélag Mercedes Benz hafa selt hluti sína í rafbílaframleiðandanum Tesla. Toyota seldi alveg nýlega 2,4 prósenta hlut sinn en gefur ekki upp hver kaupandinn er. Áður hafði Daimler selt sín 4 prósent í Tesla.
Ekki er hægt að segja að þessi tvö stóru bílafyrirtæki hafi farið illa út úr því að kaupa sig inn í Tesla á erfiðum tímum þegar líf fyrirtækisins hékk á bláþræði. Fjárfestingar beggja voru að segja má mikilvæg fæðingarhjálp og nú er Tesla á ágætri siglingu og hlutabréfin í fyrirtækinu stigið mjög í verði, svo mjög að jafnvel eigandinn Elon Musk segir sér þykja nóg um. Daimler fjárfesti í Tesla árið 2009 fyrir 50 milljónir dollara en seldi bréfin fyrir skemmstu á 15-földu því verði eða á um 750 milljónir dollara. Talsmaður Daimler segir aðspurður um ástæður fyrir sölunni nú þá að ýmis spennandi verkefni séu framundan og í þau verði peningarnir notaðir.
Meðan á samvinnunni við Daimler stóð, lagði Tesla til raftækniþekkingu og –búnað í margar rafmagnsútgáfur Daimler bíla eins og Benz B, Benz Vito og Smart Fortwo. Þá lagði Tesla til þekkingu og búnað í rafmagnsútgáfur Toyota RAV4 en alls voru framledd 2.500 eintök af þeim bíl.
Meginástæða þess að Toyota hættir samvinnu við Tesla nú er sögð vera sú að hjá Toyota telji menn að mörg ár eigi eftir að líða enn, áður en rafbílar nái sama notagildi og hefðbundnir bílar. Þeir séu einfaldlega ekki samkeppnishæfir við brunahreyfilsbílana enn, og verði það ekki næstu mörg árin.