Bestu bílar ársins 2012 að mati Folksam í Svíþjóð

Sænska tryggingafélagið Folksam hefur nú grandskoðað 2012 árgerðir þeirra bíla sem eru á markaði í Svíþjóð með tilliti til öryggis og umhverfismildi þeirra. Niðurstaðan er sú að einungis 10 uppfylla kröfur félagsins um öryggi og umhverfisgæsku. Ef allir bílakaupendur í landinu myndu velja nýjan bíl af þessum lista Folksam telur félagið að um 30 mannslíf myndu sparast í umferðinni á hverju ári og 400 manns komast hjá því að slasast alvarlega.

Þetta er í 15. sinn sem Folksam gefur út þennan öryggislista. Til að bílar yfirleitt komi til greina á hann þurfa þeir að vera með ESC stöðugleikabúnað, hljóðgjafa sem minnir fólkið á að spenna öryggisbeltin, með hálshnykksvörn og loks að hafa náð fimm stjörnum í árekstrarprófi EuroNCAP. CO2 útblásturinn má loks ekki fara yfir tiltekin mörk sem ráðast af þyngd bílanna.

Sérstök áhersla er að þessu sinni á smábílana enda er það ekkert einfalt mál að gera þá örugga, sérstaklega í árekstrum við mun stærri og þyngri bíla. Mikilvægt er því að koma í smábílana rafeindabúnaði sem kemur í veg fyrir að slys í uppsiglingu eigi sér stað. Þetta er búnaður eins og ESC skrikvörn, rafeindasjón og sjálfvirkur hemlunarbúnaður.  Meðal nýrra smábíla sem „fæddir“ eru með sjálfvirkan hemlunarbúnað er hinn nýi VW Up en hann er fyrsti og eini smábíllinn ennþá, sem hefur búnaðinn. Þá vekur árangur Toyota athygli því að þrjár gerðir Toyotabíla koma best út, hver í sínum stærðarflokknum. Þetta eru Toyota Yaris, Toyota Prius og Prius Plus.

Anders Ydenius slysarannsakandi hjá Folksam segir þróun öryggisþátta smábílanna sérlega ánægjulega því einmitt þeir hafa lengstum setið á hakanum í þeim efnum. Hinn nýi Volkswagen Up sé með sjálfvirka hemlun sem staðalbúnað en búnaðurinn sé nú fáanlegur sem sérvalsbúnaður í systurbílunum Seat Mii og Skoda Citigo og einnig í Lexus CT 200h og Ford Focus o.fl.  Hann segir þennan búnað einn þann mikilvægasta í því að koma í veg fyrir árekstra og meðfylgjandi meiðsli, örkuml og jafnvel dauða.

 Alls eru það 56 bílar sem komast á þennan viðurkenningalista Folksam og hér að neðan eru nefndir þeir eyðslugrennstu þessara öruggu bíla í hverjum stærðarflokki um sig. Sjá má listann í heild á heimasíðu Folksam.

 

Stærðarfl.

Jarðefnaeldsneyti

Aðrir orkugjafar

Smábílar

Toyota Yaris 1,5 HSB

Stærri smábílar

Lexus CT 200h

Meðalstórir bílar

Toyota Prius 1,8 HSD tengiltvinnbíll

Ford Focus 1,6 Ti-VCT

Stórir fólksbílar

Hyundai i40 1,7 CRDi

Volvo V70 AFV Bi-Fuel

Minni fjölnotabílar

Toyota Prius Plus

Opel Zafira 1,6 CNG Turbo EcoFlex

Stærri fjölnotabílar

Ford Galaxy 2,0 TDCi 115