Betra vegakerfi borgar sig sjálft
11.01.2019
Engin þörf er á sérstakri skattheimtu eða vegtollum til að borga uppbyggingu vegakerfisins. Úrbæturnar borga sig sjálfar og rúmlega það. Hér eru 10 atriði sem renna stoðum undir þessa niðurstöðu.
- Í samgönguáætlun Alþingis kemur fram að samfélagslegur kostnaður af umferðarslysum geti verið á bilinu 40-60 milljarðar króna á ári. Með betra og öruggara vegakerfi má lækka þennan kostnað um 20-25 milljarða króna á ári. Úrbæturnar borga sig því sjálfar.
- Flest umferðarslysin eiga sér stað á fjölförnustu leiðunum á suðvesturhorninu. Ávinningurinn af fyrirhuguðum úrbótum þjóðvega á því svæði er ótvíræður. Ávinningurinn af tvöfalda kaflanum á Reykjanessbrautinni er sá að engin banaslys hafa orðið þar, en fyrir tvöföldun voru þau eitt eða fleiri á hverju ári.
- Lækkun útgjalda sjúkrahúsa og endurhæfingarstofnana vegna umferðarslysa getur staðið undir afborgunum lána vegna öruggari þjóðvega til og frá höfuðborgarsvæðinu. Heildarútgjöld ríkissjóðs þurfa ekki að aukast um eina krónu.
- Samfélagslegt tap einstaklinga sem lenda í umferðarslysum og fjölskyldna þeirra gæti minnkað um 5-10 milljarða króna á ári. Minni kostnaður tryggingafélaga stuðlar að lægri iðgjöldum.
- Minnkað álag á viðbragðsaðila með fækkun umferðarslysa dregur úr þörf þeirra fyrir framlög úr ríkissjóði.
- Greiðar samgöngur með góðu vegakerfi stuðla að betri nýtingu innviða samfélagsins og þar af leiðandi hagvexti.
- Greiðar samgöngur á suðvesturhorninu draga úr þrýstingi á samþjöppun íbúðabyggðar á höfuðborgarsvæðinu. Þær gera einstaklingum og fjölskyldum auðveldara að velja búsetu eftir þörfum og á ódýrari svæðum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, til hagsbóta fyrir alla.
- Heildarávinningurinn af stórbættu vegakerfi kemur fram á öllum sviðum. Framleiðni þjóðfélagsins eykst. Greiðari umferð styttir ferðatíma og dregur úr mengun. Vöruflutningar verða ódýrari og þar með njóta einstaklingar jafnt og fyrirtæki góðs af. Hreyfanleiki vinnuafls og fyrirtækja eykst.
- Jarðgöng víða um land sýna best hve ávinningurinn af góðum og öruggum samgöngum er mikill.
- Lántaka vegna samgöngubóta eru einhver besta fjárfestingin sem ríkisvaldið getur tekist á hendur, auk þess að stuðla að heilbrigðum skuldabréfamarkaði.