Better Place hlýtur viðurkenningu japanskra stjórnvalda fyrir rafgeymaskiptakerfi

 

Better Place, alþjóðlegt fyrirtæki Ísraelsmannsins Shai Agassi sem vinnur að því að rafvæða bílaflota í ýmsum löndum, fékk nýlega viðurkenningu frá japönskum stjórnvöldum fyrir áætlun um að rafvæða leigubílaflota Tokyoborgar.  Jafnframt vilja Japanir að áætluninni verði hrint í framkvæmd sem tilraunaverkefni. Samkvæmt áætluninni verða leigubílarnir með sérstakri tækni Better Place til að skipta út tómum rafhlöðum í bílunum og koma fyrir fullhlöðnum í þeirra stað. Þessi skipti gerast sjálfvirkt í sérstökum hleðslu- og skiptistöðvum á augnabliki

 Better Place verður í náinni samvinnu við stærsta leigubílafyrirtækið í Tokyo um verkefnið og bílarnir verða fyrsti rafknúni leigubílafloti í veröldinni sem í ofanálag er með rafhlöðum sem á að vera hægt að skipta um á örskotsstund, eða fáeinum sekúndum. Better Place hefur þróað rafhlöðuskiptikerfið og sýndi það á sýningu í Yokohama í Japan fyrr á þessu ári. Japanir hrifust mjög af því. Gert er ráð fyrir því að rafmagnsleigubílarnir hefji akstur strax í janúar á næsta ári.

Kiyotaka Fujii er forstjóri Better Place í Japan og jafnframt sölu- og útbreiðslustjóri í Asíu og Eyjaálfu. Hann segir við fjölmiðla að rannsóknaverkefnið sé vel til þess fallið að kynna og þrautreyna rafhlöðuskiptakerfi Better Place. Leigubílarnir séu í margfalt meiri notkun en venjulegir fjölskyldubílar og séu þannig gott upphaf umskiptanna frá mengandi umferð yfir í umferð sem ekki gefur frá sér neitt CO2. Leigubílaflotinn í Japan er um það bil tvö prósent af fólksbílaflota landsins en frá þeim koma um 20 prósent af heildarmagni þess CO2 sem fólksbílar Japana gefa frá sér árlega.

 Leigubílar í Tokyoborg eru um 60 þúsund talsins. Þeir eru þannig miklu fleiri en í öðrum stórborgum eins og t.d. New York og Hong Kong. Sú reynsla sem mun fást með þessu rannsóknarverkefni mun því nýtast öðrum stórborgum sem hrjáðar eru af mengun, ef vel tekst til. Sömuleiðis telur forstjóri Better Place í Japan að ef þetta rafhlöðuskiptakerfi gengur upp, verði það til að auðvelda almennum bíleigendum umskiptin frá hefðbundnum bílum yfir í rafbíla.