Hjólafólk yrði að geta treyst vegum landsins betur
Sniglar – Bifhjólasamtök lýðveldisins komu saman til til fjölmenns samstöðufundar við húsnæði Vegagerðarinnar í Borgartúni eftir hádegi í dag. Efnt var til fundarins vegna banaslyss á Kjalarnesi sl sunnudag þar sem ökumaður og farþegi bifhjóls biðu bana í árekstri við húsbíl sem rakið er til hálku sem myndaðist á nýlögðu malbiki.
Jokka G. Birnudóttir, gjaldkeri Sniglanna, las upp yfirlýsingu fyrir hönd bifhjólafólks á fundinum og í kjölfarið var mínútuþögn. Í yfirlýsingunni segir m.a. að þess sé krafist að hjólafólk yrði að geta treyst vegum landsins betur.
„Það er sorg í hjörtum hjólafólks í dag. Hörmulegur atburður hefur orðið til þess að öll sem eitt höfum við risið upp og segjum öll það sama; við erum búin að fá nóg.
Hver einasta manneskja sem hefur notað mótorhjól getur sagt sögu af hálum vegum, lausamöl ofan á malbiki, einbreiðum brúm, hvassar brúnir við ristahlið, sagt okkur sögur þar sem viðkomandi hefur nánast dottið, eða dottið og hlotið skaða af.
Í mörg ár hefur verið bent á þetta, kvartað undan þessu, við ráðamenn þjóðarinnar, við Vegagerðina, við verktaka, en upplifun okkar er sú að það er ekki hlustað á okkur,“ segir m.a. í yfirlýsingunni.