Bílabíó á RIFF

Hið vinsæla bílabíó snýr aftur laugardaginn 21. september á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð Reykjavík, RIFF, enn sem fyrr er það eitt það stærsta sem haldið hefur verið hér á landi. Risastóru bíótjaldi verður komið fyrir við reiðhöllina í Víðidal þar sem tekið verður á móti gestum í sannkallaða kvimyndaveislu. Matarvagnar, popp og gos verður á staðnum til að gera bíóupplifunina enn eftirminnilegri.

Fjórar vinsælar kvikmyndir verða sýndar yfir daginn og hefst fyrsta sýning kl 15:30. Einfalt verður að tengja útvarpið við rétta rás en auk þess verður íslenskur texti við allar kvikmyndirnar. Þá verða sérmerkt stæði fremst við skjáinn fyrir bíógesti með fötlun.

Þetta er mikill stemningsdagur fyrir íslenska bifreiðaeigandur - og þarf bara að kaupa einn miða fyrir hvern bíl

Dagskrá bílabíós

 

15:30 - BRÓÐIR MINN LJÓNSHJARTA 106 MÍN

Sænska myndin sem sló í gegn 1977 í leikstjórn Olle Hellblom og fjallar um viðureign bræðranna Karls og Jónatans við Þengil grimma og svartklæddu riddarana hans.

18:00 - MEÐ ALLT Á HREINU 99 MÍN

Sú ógleymanlega söngvamynd Ágústs Guðmundssonar frá 1982 þar sem liðsmenn Stuðmanna og Grýlanna fara á kostum í keppni tveggja hljómsveita sem fara um landið.

20:15 DRAUGASAGA 64 MÍN

Kynngimögnuð ræma Viðars Víkingssonar frá 1985 um læknanema sem tekur að sér næturvörslu í sjónvarpshúsi og kryddar þar sögur um meinta reimleika á staðnum.

21:30 TILBURY 53 MÍN

Önnur mynd úr fórum Viðars frá árinu 1987, sem í þetta skipti fékk skáldið Þórarinn Eldjárn með sér í lið við handritaskrifin. Hér segir frá sveitastrák á stríðsárunum sem horfir á eftir ástinni sinni í hendur hermanns, sem er kannski, þegar allt kemur til alls, bara tilberi.

TAKTU FRÁ LAUGARDAGINN 21. SEPTEMBER Í VÍÐIDAL

Bílabíó RIFF gerir bíóupplifunina aðgengilega fyrir alla. Íslenskur texti verður við allar kvikmyndirnar og sérmerkt stæði fremst við skjáinn fyrir bíógesti með fötlun, sem þar að auki fá miðann á sérstökum kjörum, 3990kr, en almennt miðaverð er 4990kr.