Bilaðir hemlar algengir í Danmörku

http://www.fib.is/myndir/Bilanir.jpg

Bilanir í hemlum bíla eru næst algengasti ágalli sem skoðunarstöðvar FDM, systurfélags FÍB í Danmörku finna við ástandsskoðun á 1.700 bílum félagsmanna sinna. Ýmiskonar bilanir í vél og vélbúnaðir reyndust algengastar.

Fjórði hver bílanna var með gamlan hemlavökva með of lágt suðumark þannig að á lá að skipta vökvanum út. Með aldrinum dregur hemlavökvinn í sig raka og smá saman hækkar vatnsinnihaldið í vökvanum og suðumarkið lækkar að sama skapi. Ef hemlavökvi sýður, hverfa allar bremsur af bílnum.

Í ljós kom einnig að fimmti hver bíll var með lélega eða ónýta hemlaklossa og hemladiska, sjöundi hver var með ryðguð og tærð hemlavökvarör og í einum tíunda bílanna voru hemlabarkar við hjól fúnir. Allt eru þetta ágallar sem gætu haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. En þess skal getið í þessu samhengi að Danir eiga bíla sína lengur en margar aðrar þjóðir og meðalaldur þeirra bíla sem skoðaðir voru er 10 ár.

Per Antvorskov er tæknistjóri FDM. Hann segir að rannsóknin sýni að það sé skynsamlegt fyrir bíleigendur að láta ástandsskoða bíla sína árlega eða í það minnsta í samræmi við fyrirmæli framleiðanda, því að margar bilanir sem fram koma í bílum eru ekki sýnilegar með berum augum og eigendur bíla finna oft ekki að eitthvað er að. Slíkar ósýnilegar bilanir geti leitt til slysa og/eða grafið um sig og leitt til annarra og alvarlegri og dýrari bilana sem bæði geta orðið fjárhagslega erfiðar. 

Alls fundust í bílunum 1.700 12.119 bilanir eða ágallar. Það þýðir að rúmlega sjö bilanir eða ágallar voru til staðar í sérhverjum þeirra. Algengastar voru bilanir í vélum eða búnaði þeirra, eða 2.643. Hemlabilanir reyndust 2.568 og bilanir í rafkerfum og ljósakerfum reyndust  2.240.