Bílaeldsneytið enn dýrara

http://www.fib.is/myndir/Bensinbyssa.jpg

Á laugardag og sunnudag sl. hækkaði bensínlítrinn í verði um þrjár krónur hjá Esso, Skeljungi og Olís. Verð bensínlítra með fullri þjónustu er eftir hækkunina 134,40 kr. og lítrinn af dísilolíu kostar 128,30 kr. Algengasta sjálfsafgreiðsluverðið á bensínlítra eftir hækkunina nú er kr. 129,40 kr. og sjálfsafgreiðsluverðið á dísilolíunni er kr. 123,30. Mánaðamót eru hefðbundinn tími verðbreytinga og er hækkunin nú skýrð á heimasíðum Esso, Skeljungs og Olíss með háu heimsmarkaðsverði og lækkandi gengi íslensku krónunnar gagnvart dollarnum.

Í morgun, mánudaginn 3. júlí hafði Atlantsolía ekki hækkað eldsneytisverð á sínum stöðvum. Þar kostaði bensínið ennþá 124,40 og dísilolían kr. 119,20 lítrinn. Minnt skal á hér að félagar í FÍB sem hafa fengið rafrænan dælulykil FÍB og Atlantsolíu greiða tveimur krónum minna fyrir lítrann, eða kr. 122,40 fyrir bensínið og kr. 117,20 fyrir dísilolíuna. Bensínlítrinn til þeirra er því (ennþá) sjö krónum ódýrari.