Bílafloti Íslendinga er með þeim yngri í samanburði við nokkur evrópulönd
Í tölum sem Hagstofa Evrópusambandsins, Eurostat, birti kemur fram að bílafloti Íslendinga er með þeim yngri í samanburði nokkurra landa í Evrópu. Eurostat, birti nýverið yfirlit yfir aldur bílaflota í álfunni og þegar tölur um íslenska flotann eru bornar saman má sjá að tíu lönd hafa á að skipa hærra hlutfalli nýrra bíla, fimm ára og yngri. Ísland er í ellefta sæti listans en 17 lönd eru þar fyrir neðan með lægra hlutfall nýrra bíla. Þetta kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins um málið.
Um er að ræða tölur frá Samgöngustofu fyrir árið 2020 og birtust tölurnar fyrir Ísland í Árbók bílgreina sem Bílgreinasambandið gefur út. Þar má sjá að í bílaflota landsmanna það ár voru hvorki fleiri né færri en 269.548 bílar. Um 32% bílaflotans hér á landi voru 0-5 ára það ár. Um 18% bíla voru 6-10 ára, um 17% voru 11-15 ára, 15% voru 16-20 ára og 18% reyndust vera 20 ára og eldri. Meðalaldur fólksbíla lækkaði lítillega á milli ára og fór úr 12,7 árum í 12,6 ár að því er fram kemur í samantekt Bílgreinasambandsins.
Fram kemur að meðalaldur annarra skráðra bifreiða hækkaði hins vegar úr 12,68 árum í 14,8 ár. Sé litið einungis á fólksbíla sem skráðir eru í notkun árið 2020 er meðalaldurinn um 10,1 samanborið við 9,86 árið áður. Í samantekt Eurostat má sjá að í Lúxemborg er bílaflotinn sá yngsti í Evrópu.
Á Íslandi eru um 33% fólksbíla tíu ára og eldri samkvæmt tölum fyrir árið 2020. Í samantekt Bílgreinasambandsins má sjá að skráðum ökutækjum fjölgaði á milli ára hér á landi, líkt og hefur verið allar götur síðan árið 2011. Heildarfjöldi skráðra ökutækja nam alls 391.033 árið 2020 og hefur fjölgað um 92.335 síðan árið 2011. Á sama tíma fjölgaði fólki með búsetu á Íslandi um 50.340. Ökutækjum hefur því fjölgað næstum tvöfalt meira en einstaklingum með fasta búsetu hérlendis, en þar hefur ferðamannafjöldi á síðustu árum mikil áhrif að því fram kemur í umfjöllun Morgunblaðsins.