Bílaframleiðendur órólegir út af Trump
Hrollur fer þessa dagana um stóru þýsku bílaframleiðendurna og reyndar fleiri en þá. Þeim óar við því að Donald Trump muni standa við stóru orðin í kosningabaráttunni um harða verndarstefnu í þágu innlendrar bifreiðaframleiðslu.
VDA sem eru samtök þýskra bílaframleiðenda hafa viðrað áhyggjur sínar af því hvað muni gerast þegar Trump sest í forsetastólinn. Í kosningabaráttunni sagðist hann m.a. ætla að taka upp verndartolla á vörur og þjónustu sem fyrir er í Bandaríkjunum til að verjast erlendri samkeppni, ekki síst í bílaiðnaðinum. Hann nefndi sérstaklega að hann ætlaði sér að leggja háa tolla á bíla sem framleiddir eru í Mexíkó og verja þannig innlend störf.
Í frétt frá VDA segir að með nýjum forseta sé útlit fyrir að Bandaríkin breyti um stefnu og ætli að einblína á eigin hagsmuni og líta framhjá alþjóðasamningum um viðskipti og samskipti þjóða í milli.
Margir bílaframleiðendur, þar á meðal þýsku framleiðendurnir Daimler (Mercedes, Mini, Smart o.fl.) Volkswagen og BMW hafa fjárfest í stórum bílaverksmiðjum í Mexíkó og framleiða þar bíla þar fyrir Bandaríkjamarkað en engir tollar leggjast á bíla þaðan við innflutning til Bandaríkjanna, enda fríverslunarsamningur í fullu gildi milli landanna.
Ef þetta breytist og tollmúrar verða reistir kring um bandarísku bílaframleiðsluna á heimavelli á gamanið eftir að kárna, ekki síst fyrir bílaframleiðslu Volkswagen í Pueblo í Mexíkó sem stendur á gömlum merg. Þá verður tilveru nýlegra og nýrra verksmiðja Daimler, BMW og Renault-Nissan í Mexíkó, sem sumar hverjar eru að hefja starfsemi, ógnað verulega.