Bílahjólbarðar og kvenleg nekt
22.11.2005
Nakinn kvenlíkami eða einstakir hlutar hans er óspart notaður í auglýsingum fyrir hvers kyns varning enda vita þeir sem þar um véla að slíkt fangar athygli karla. Að vísu er vandséð samhengið milli einstakra vörutegunda, t.d. bílahjólbarða og kvenlegrar nektar. En karlpeningurinn glennir upp skjáina og þar með er tilganginum víst náð.
Í það minnsta hafa dekkjaframleiðendur lengi gefið út dagatöl með a.m.k. einni nakinni konu fyrir hvern mánuð og gera enn, t.d. Pirelli sem hélt sérstaka sýningu um síðust helgi á myndum úr nýja 2006 dagatalinu sínu í París. Myndirnar í nýja Pirelli dagatalinu eru eftir tvo ljósmyndara; Tyrkjann Mert Alas og Bretann Marcus Piggott og segjast þeir og útgefandinn hafa unnið þetta 42. dagatal Pirelli undir kjörorðunum Frelsi-tjáningarfrelsi.
Myndirnar eru allar svar/hvítar og fyrirsæturnar eru allar vel þekktar. Þær eru Jennifer Lopez, Kate Moss, Gisele Bündchen, Natalia Vodianova, Karen Elson und Guinevere van Seenius. Allt eru þetta íðilfagrar stúlkur og á myndunum eru þær ekki mjög hlýlega klæddar.