Bílaiðnaðurinn

http://www.fib.is/myndir/VW-Dresden.jpg
Úr verksmiðju VW í Dresden í Þýskalandi.

Gengi helstu bílaframleiðenda heimsins er mjög misgott um þessar mundir. Það sýna sölutölur fyrir annan ársfjórðung yfirstandandi árs glöggt. Almennt séð gengur bílaiðnaðurinn í Evrópu vel en illa í Bandaríkjunum.

Á hvoru tveggja eru þó undantekningar. Volvo í Svíþjóð, sem er í eigu Ford, gengur ekki of vel. Rekstrartap á öðrum ársfjórðungi er um 9,8 milljarðar ísl. kr. sem er litlu minna en var á fyrsta ársfjórðungi. Volkswagen gengur hins vegar ágætlega og hagnaðurinn á öðrum ársfjórðungi fyrir skatta er um 273 milljarðar ísl. kr. Það er 22 prósenta aukning frá fyrsta ársfjórðungi. Svipað er að segja um Audi en Audibílar seljast sem aldrei fyrr og hagnaðurinn meiri en dæmi eru um áður hjá fyrirtækinu.

Ford samsteypan í heild á enn í örðugleikum og tapaði sem svarar 711 milljörðum ísl. kr. á öðrum ársfjórðungi. Það er mesta ársfjórðungstap í sögu Ford. Í kjölfarið lækkuðu hlutabréf í Ford um 15,3 prósent. Nú hefur það gerst að stjórnendur Ford hafa lýst því yfir að nú verði kúvending í framleiðslunni og framvegis verði aðaláherslan lögð á framleiðslu minni bíla. Sex gerðir evrópskra Ford bíla verða nú þegar teknar í sölu í Bandaríkjunum og þremur verksmiðjum sem hingað til hafa byggt stóra pallbíla og jeppa verður breytt þannig að framvegis munu þær framleiða litla og meðalstóra bíla á evrópska vísu.  

Meira að segja hjá Mercedes Benz, sem gengur flest í haginn í Evrópu, er verið að skera niður í framleiðslunni í bílaverksmiðjunum í Alabama í Bandaríkjunum. Þar eru einkum framleiddir stórir bílar eins og ML og GL jeppar og R-Benzlínan. Fjölmiðlafulltrúi Benz verksmiðjanna í Alabama segir að þetta sé í fyrsta sinn í 11 ár sem hægja þarf á framleiðslunni. Á síðasta ári voru 174.356 Benz bílar byggðir í Alabama.

Chrysler hefur heldur ekki náð flugi í Bandaríkjunum eftir skilnaðinn við Benz. Samkvæmt tilkynningu sem send var út í síðustu viku hefur þúsund manns verið sagt upp störfum og hætta þeir í lok septembermánaðar. Áður hafði verið tilkynnt um að önnur framleiðsluvaktin í  verksmiðjunni í Missouri yrði lögð niður. Missouri verksmiðjan framleiðir Dodge Ram pallbílinn.

Salan hjá stærstu bílafyrirtækjum heims, GM og Toyota reyndist undir áætlunum á öðrum ársfjórðungi.  Samdrátturinn hjá Toyota í Evrópu og Bandaríkjunum reyndist vera fimm prósent. Stærstan hluta hans er að rekja til Bandaríkjanna. Toyota gekk hins vegar vel annarsstaðar í heiminum og þrátt fyrir afturför í Bandaríkjunum og Evrópu, jókst heildarsala Toyota um 2,2 prósent.

Hjá Renault í Frakklandi jókst salan um 4,2 prósent sem er betra en áætlanir gerður ráð fyrir. Engu að síður hyggst Renault rifa seglin á næstunni. Ástæðan er ekki síst lítil og minnkandi eftirspurn eftir Renault Megane og Megane Scenic bílunum og síhækkandi hráefnisverð. Ný kynslóð Megane og Scenic gerðanna er þó í sjónmáli og reiknað er með talsverðri söluaukningu þegar þær koma á markað.  

Hjá PSA (Peugeot/Citroen) í Frakklandi gekk einnig betur en vænst var, en menn reikna með erfiðari tímum framundan, ekki síst vegna síhækkandi verðlags á hráefni.