Bílaklúbbur lánar út rafmagnshjól

RACC, sem er systurfélag FÍB í Katalóníu á Spáni hefur gangsett samvinnufélag um rafmagns-skellinöðrur sem félagar geta gengið að og notað að vild og skilað síðan á tiltekinn hleðslustað að notkun lokinni. Þetta er hluti af þróunarverkefni sem heitir smartCEM (Smart Connected Electro Mobility). Að því standa evrópsku borgirnar Barcelona og San Sebastian á Spáni, Newcastle í Bretlandi og Reggio Emilia á Ítalíu. Tilgangur þess er að skapa jákvæðan anda og vilja hjá almenningi til að nýta hverskonar rafknúin samgöngutæki.

http://fib.is/myndir/Scooter_RACC.jpg

Þróunarverkefninu var hleypt af stokkunum sl. miðvikudag í höfuðstöðvum RACC í Barcelona þar sem fulltrúar borganna fjögurra hittust og ræddu rafknúnar samgöngur. SmartCEM verkefnið snerist í upphafi um rafbíla og samvinnufélög um þá en RACC hefur víkkað það út með því að hafa frumkvæði að þessum rafmagnsskellinöðrum, sem reyndar henta afar vel í Barcelona þar sem þriðjungur allra vélknúinna farartækja í umferð eru skellinöðrur og mótorhjól. Hinar aðildarborgirnar munu síðan ýta sínum verkefnum úr vör hverju af öðru næstu vikurnar. Í öllum þessum verkefnum verður megináherslan á það að útrýma hindrunum í vegi rafknúinna farartækja til að gera samnýtingu þeirra og alla notkun sem allra fyrirhafnarminnsta og einfaldasta.