Bílalakk með DNA
Tæknifólkið hjá Nissan vinnur nú að því að þróa nýtt bílalakk. Lakkið er með einskonar „erfðaefni“ sem er sérstakt fyrir hvern einasta bíl – einskonar DNA. Sé bíl með lakkinu t.d. ekið á annan bíl á stæði er hægt að taka sýni úr lakkhúð úr bíl þess sem ók á og stakk síðan af. „Erfðaefnið“ í sýninu er síðan hægt að rekja beint til viðkomandi bíls, svipað og ef um væri að ræða DNA-próf.
Tæknifólk Nissan virðist vera ansi duglegt í bílalakki því að ekki er langt síðan fregnir bárust af tilraunum Nissan með lakk sem hefur þann eiginleika að rispur og minniháttar lakkskemmdir laga sig sjálfar – sárin gróa af sjálfu sér!
Það mun vera talsvert algengt í Japan að ekið sé utan í bíla á stæði og tjónvaldar stinga síðan af án þess að láta vita. Þar, eins og víðar annarsstaðar, á lögregla ekki hægt um vik að finna tjónvaldana þar sem verkefni eru næg við alvarlegri umferðaróhöpp þar sem meiðsli hafa orðið. Lögreglan verður einfaldlega að forgangsraða.
Þessar rannsóknir og tilraunir með „DNA“ lakk standa yfir í bæði heimalandinu Japan og Bandaríkjunum og er reiknað með að tæknin verði tilbúin til notkunar innan fimm ára.