Bílalán og kaupleiga


http://www.fib.is/myndir/Leasingcontract.jpg
Kaupleigusamningur - hvað stendur í smáa letrinu?


FDM, systurfélag FÍB í Danmörku og danska neytendastofnunin hafa lengi haft horn í síðu kaupleigusamninga einstaklinga á bílum. Ástæður þess eru þær að þessir samningar eru yfirleitt flóknir og með loðnu og óræðu orðalagi og þegar fólk hefur undirritað þá kemur oft í ljós í tengslum við breytingar á högum kauplegutakans að hann er fastur í gildru einhverra skuldbindinga sem hann hafði ekki hugmynd um að fylgdu með í kaupunum.

Ef kaupleigutaki vill losna út úr kaupleigusamningi t.d. í  tilfellum eins og atvinnumissi, skilnaði eða andláti maka kemur nefnilega oft í ljós að hann er krafinn um risafjárhæðir í tengslun við riftun. FDM hefur gagnrýnt þessháttar kaupleigusamninga fyrir það hve réttarstaða kaupleigutaka hefur verið rýr í roðinu.

Af þessu tilefni hefur danska dómsmálaráðuneytið samið lagafrumvarp um kaupleigusamninga einstaklinga og hefur fyrsta umræða um það þegar farið fram í þinginu. Frumvarpinu er ætlað að stórbæta neytendavernd í kaupleigusamningum um bíla og aukinheldur í hverskonar öðrum kaupleigusamningum eins og áskriftarsamningum um t.d. sjónvarps-, síma- og Internetpakka o.fl.

Í lagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir danska þinginu eru reglur um hámarks binditíma samninga af ofannefndu tagi. Samkvæmt þeim skal binditími aldrei vera lengri en eitt ár á samningum yfir 20 þúsund danskar krónur að verðmæti og skemmri á öðrum. Þá eru einnig ákvæði um hversu háan kostnað lánveitandi getur lagt ofan á upphæð samningsins í samningsbyrjun og við lok hans. Segja megi upp samningi með mánaðar fyrirvara og í fyrsta lagi þegar 11 mánuðir eru liðnir af samningi og renni hann þá út í lok 12. mánaðarins.

FÍB hefur  undanfarið verið að skoða þessi sömu mál því svo virðist sem lána- og kaupleigufyrirtæki í viðskiptum með bíla telji sig hafa sjálfdæmi um að meta bíla til mun lægra verðs en gengur og gerist á almennum markaði. Hjá félaginu er nú fjöldi mála til meðferðar þar sem  lántakendur telja sig hafa verið hlunnfarna í viðskiptum við bílalána- og kaupleigufyrirtæki.