Bílamenn eða baunateljarar

http://www.fib.is/myndir/ChevrolVoltAftur.jpg
http://www.fib.is/myndir/Cadillac_CTS_Coupe.jpg
http://www.fib.is/myndir/ChevroletCamaro2011.jpg
GM bílar sem Bob Lutz átti hlut að. Efst
er Chevrolet Volt. Í miðið er Cadillac
CTS. Neðstur er svo Chevrolet Camaro.

Gamli bílamaðurinn, flugmaðurinn, strigakjafturinn og þjóðsagnapersónan Bob Lutz, sem síðast var einn æðstu stjórnenda General Motors og átti mikinn þátt í endurreisn GM, er nýlega sestur í helgan stein enda tæplega áttræður. Lutz var alla tíð með munninn fyrir neðan nefið og óhræddur við að gefa stórar yfirlýsingar. Hann sagði þegar hann hætti störfum í fyrrasumar að hann væri stoltastur af því verki sínu að hafa komið rafbílnum Chevrolet Volt/Opel Ampera á koppinn og barið það í gegn að bíllinn yrði að veruleika.

Bob Lutz er nú að gefa út bók sem heitir Car Guys vs. Bean Counters, sem útleggja má -Bílamenn gegn baunateljurum. Titill bókarinnar lýsir ágætlega því áliti sem hann hefur á baunateljurunum sem hann nefnir viðskipta- og bókhaldstæknifólk sem komist hefur til valda og áhrifa í bílaiðnaðinum. Það er ekki hægt að segja að Lutz gamla þyki mikið til þessa fólks koma. Það eigi aldrei að láta það komast til áhrifa því að þá fari allt til fjandans, eins og gerðist hjá General Motors og Chrysler. Hann er þó ekki að halda því fram að hann einn hafi alltaf vitað betur en aðrir því að undirtitill bókarinnar er –Ég hafði oft á röngu að standa en ég efaðist aldrei (Often wrong, but never in doubt).

Bókin Car Guys vs. Bean Counters kemur út þann 9. júní en hún fjallar aðallega um feril Lutz hjá GM frá því hann kom þar til starfa árið 2001. Talað er tæpitungulaust um ástandið hjá GM sem var ekki bara slæmt, heldur hræðilegt að öllu leyti. Lutz segist hafa orðið þess áskynja strax þegar hann kom til starfa sem yfirmaður framleiðslu- og þróunardeildar haustið 2001 að hjá GM hafi menn einblínt á flest annað en það sem bílaframleiðendur eigi að einblína á, það er að segja bíla. 

Fyrsti fundur hans með þáverandi yfir-bílahönnuði GM, Wayne Cherry til að skoða teikningar af nýjum gerðum bíla, hafi verið hrein hryllingssýning og ekki einu sinni yfirhönnuðurinn hafi getað þóst ánægður, enda hefðu teikningarnar verið forljótar. En það var ekki vegna þess að Cherry hafi skort hæfileika heldur hafi hann verið þvingaður af bókhaldstæknunum til að hanna bíla sem væru sem ódýrastir og auðveldastir í framleiðslu. Unnið hafi verið eftir þeirri grillu að GM-menn gætu, alveg eins og Toyota, verið eldsnöggir að þróa nýjar gerðir. Þessi stefna hafi haft þær alvarlegu afleiðingar að nýir GM bílar voru upp til hópa meingölluð hrákasmíði.

Lutz segist strax hafa séð að framleiðsluáætlanir GM hefðu verið meingallaðar og dæmdar til að mistakast. Því hafi hann byrjað á því að stöðva þróun og framleiðslu á flestum nýjum gerðum bíla sem áætlaðar höfðu verið. Þetta hefði orðið til þess að nýjum gerðum seinkaði mjög, en þetta hafi verið nauðsynlegt því annars hefði farið enn verr en þó fór. Hann sagðist síðan hafa gefið hönnuðinum Wayne Cherry frjálsar hendur með að hanna áhugaverða og spennandi bíla. Þeirri stefnu hefði síðan eftirmaður sinn, Ed Welburn fylgt.

Það hafi þó sannarlega ekki skort hæfileika innan GM á þessum tíma og í bókinni telur Lutz upp langa runu nafna innan GM sem hann segir hafa verið hetjur sem þorðu að rísa gegn og gagnrýna opinskátt þá ríkjandi stefnu meðalmennsku og sinnuleysis sem var á leið með GM í gröfina.

Eins og fram hefur komið þá vildi Bob Lutz vanda til bíla og hélt því á laun fjögurra manna hóp bílablaðamanna sem prófuðu markvisst allar frumgerðir nýrra bíla og bílgerða fyrir hann og sögðu honum beint og hispurslaust frá kostum og göllum þeirra. Orð þessara fjögurra blaðamanna voru lög og í framhaldinu urðu hönnuðir og tæknifólk að breyta bílunum og laga þar til blaðamennirnir og Lutz voru ánægðir. Út úr þessari vinnu komu margir ágætir bíla og meðal þeirra er Cadillac CTS sem er bæði fyrirtaks akstursbíll en jafnframt öruggur og endingargóður og laus við bilanir. Chevrolet Volt er líka einn þessara bíla en hann þykir góður í akstri, vel hannaður og vel samanskrúfaður í hvívetna.

Bob Lutz spyr í bókinni spurningarinnar sem efalítið brennur á margra vörum: Hefur GM lært sína lexíu eða á allt eftir að síga í sama gamla farið aftur? Eiga „baunateljararnir“ og bókhaldstæknarnir eftir að ná aftur undirtökunum og byrja að spara hér og þar í framleiðslunni og rýra gæði bílanna í þeirri von eða jafnvel vissu að neytendur muni aldrei uppgötva vörusvikin – alveg eins og baunateljararnir hafa alltaf gert – hjá GM og Chrysler upp úr 1986 og víðar.  Tíminn mun leiða það í ljós hvort Lutz hafi tekist ætlunarverkið hjá GM, en bókin, sem kemur út 9. júní nk. er án efa forvitnileg og líkleg til að gefa góða innsýn í heim bílaframleiðslunnar.