Bilanatíðnirannsókn ADAC 2010
ADAC, systurfélag FÍB í Þýskalandi hefur sent frá sér niðurstöður árlegrar tölfræðirannsóknar á bílanatíðni bíla. Niðurstöðurnar eru byggðar á útköllum vegaþjónustu ADAC og þegar er búið að taka tillit til fjölda einstakra tegunda og gerða í umferð kemur í ljós hvaða tegundir og gerðir bíla bila minnst, hverjir mest og allt þar í milli. Til að ná inn í tölfræðina verður a.m.k. 10 þúsund eintök af hverri einstakri tegund og gerð að vera í umferð í Þýskalandi.
Eins og í fyrra benda niðurstöðurnar til að tryggast sé að eiga þýska bíla af tegundunum BMW, Mercedes, VW og Audi sem allir bila að meðaltali sjaldnar. En meðal annarra tegunda sem lítið bila eru Toyota og Peugeot.
Í flokki minnstu bíla er Toyota Aygo sá sem minnst bilar og gildir það um allar árgerðir. Sömu sögu er að segja af Peugeot 107 (sem reyndar er sami bíll og Aygo), 207 og 308. Svipaða sögu er að segja af nýrri árgerðum Kia Ceed meðan 2007 og 2008 árgerðirnar eru í meðallagi.
Í flokki minnstu bílanna er Chevrolet Matiz meðal þeirra sem mest bila. Einkum er það 2008 árgerðin sem er bilanagjörn með bilanatíðni vel yfir meðaltalinu. Svipaða sögu er að segja af Renault Kangoo í flokki minni meðalbíla. Þó má merkja smá bata í 2009 og -10 árgerðunum.
Í flokki meðalstórra bíla eru Ford Mondeo, Ford S-Max og Opel Vectra bilanagjarnastir. Greinilegt er þó að ýmsir ágallar hafa verið lagaðir í 2010 árgerðunum. Þeir bestu í þessum flokki eru þýsku tegundirnar BMW, Mercedes og Audi ásamt hinum japanska Nissan Qashqai.
Bilanatölurnar í bilanatölfræði ADAC grundvallast á 4,25 milljón útköllum vegaþjónustubíla ADAC árið 2010 og ná tölurnar til árgerðanna 2004-2010. Miðað við niðurstöðurnar sem gefnar voru út síðastliðið ár þá fjölgaði útköllum hjá vegaþjónustu ADAC um 8,1 prósent í fyrra miðað við árið á undan. Líkleg skýring á því er talin vera vetrarkuldar og votviðri í bæði upphafi og enda ársins 2010. Algengustu orskir útkalla vegna bíla sem stöðvast höfðu á vegum úti voru rafgeymar og rafkerfi: 53,7% og stjórnkerfi og stjórnbúnaður véla: 23,4%. Það er semsé rafmagnið sem helst stöðvar bílana.