Bílanjósnaravandamál!

http://www.fib.is/myndir/BMW_X5_Arjeplog.jpg
BMW X5 reynsluekið í Arjeplog.
 
Bílaframleiðendum er lítið gefið um þá blaðaljósmyndara sem leita uppi nýja bíla og frumgerðir bíla sem verið er að reynsluaka og ekki hafa verið gerðar opinberar. Forseti bæjarstjórnar í norðursænska bænum Arjeplog sem heitir Bengt-Urban Fransson hefur fengið bréf frá bæði BMW og Porsche. Í þeim er hann beðinn um hjálp við að hemja þennan vanda. Í Arjeplog er mjög stórt tilraunaaksturssvæði og rannsóknamiðstöðvar þar sem margir stærstu bílaframleiðendurnir prófa og þróa nýjar gerðir bíla.
 
Bæði  BMW og Porsche leggja mikla fjármuni í það að dulbúa nýjar gerðir bíla sem verið er að þróa og reynsluaka og í bréfum sínum til bæjarastjórnarforsetans segja fyrirtækin að þau bíði mikið tjón þegar myndir af reynslufarartækjunum birtast í fjölmiðlum og biðja því yfirvöld ásjár.

En Bengt-Urban Fransson segir við aðal dagblaðið á svæðinu að hann hafi nú svosem ekki mörg úrræði og geti í raun fátt gert í málinu. Ljósmyndun á almannafæri sé leyfð í Svíþjóð og meðan ljósmyndarar haldi sig innnan þeirra marka sem lög setja fólki almennt, sé ekki hægt að banna þeim að taka myndir út um víðan völl. Brjóti ljósmyndari hins vegar lög sé það lögreglunnar að grípa inn. Um ljósmyndara gildi nákvæmlega sömu lög og allt annað fólk, hvað svo sem þeir séu að mynda.