Bílar ársins í USA

Bíll ársins er í flestum Evrópulöndum útnefndur síðla árs og fær þá titilinn bíll ársins á því ári sem senn gengur í garð. Í Bandaríkjunum er þessu öðruvísi farið. Þar er bíll ársins valinn í tengslum við opnun bílasýningarinnar í bílaborginni Detroit í janúar og ekki bara einn bíll heldur tveir; fólksbíll ársins og trukkur ársins, en trukkur í þessu samhengi er annaðhvort stór jeppi eða pallbíl. Fólksbíll ársins 2012 er nú Hyundai Elantra og „trukkurinn“ er Range Rover Evoque.

http://www.fib.is/myndir/Range_rover_evoque.jpg
Range Rover Evoque.

Það er hópur 50 bandarískra bílablaðamanna sem velja bíla ársins eftir að hafa næstu 12 mánuði á undan spáð, spekúlerað og reynsluekið nýjum fólksbílum, jeppum og pallbílum. Í nóvemberlok koma 50-menningarnir saman og greiða bílunum atkvæði og þeir þrír sem flest stigin fá í hvorum flokki eru þar með komnir í úrslit. Í fólksbílaflokknum voru að þessu sinni í úrslitum Ford Focus, Hyundai Elantra, og VW Passat. Í jeppaflokknum voru BMW X3, Honda CR-V og Range Rover Evoque.

Að lokum greiða svo blaðamennirnir 50 atkvæði um þessa sex bíla, þrjá í hvorum flokknum. Það er endurskoðunarfyrirtækið Deloitte Consulting sem sér um þá atkvæðagreiðslu og þar veit einungis umsjónarmaður atkvæðagreiðslunnar um það hver úrslitin eru en gefur ekkert upp fyrr en við opnun Detroit bílasýningarinnar.