Bílar í megrunarkúr
Engu er líkara en að bílarnir séu nú á hörðum megrunarkúr, því að nýju árgerðirnar – árgerðir 2013 sem nú birtast hver af annarri, eru margar verulega léttari en þær eldri. Þannig er nýja kynslóðin af Range Rover hátt í hálfu tonni léttari en sú gamla. Og nú boðar Audi nýjan og talsvert léttari Audi A4. Hann á að koma á markað 2014 og verður auk þess fáanlegur með rafrænu fjórhjóladrifi sem kallast E-Quattro.
Núverandi kynslóð 2014 Audi A4 er einungis fimm ára gömul þannig að henni er ekki ætlað sérstakt langlífi. Nýja kynslóðin kemur fyrst í stallbaksútgáfu en langbakur svo ári síðar.
Auk þess að verða 120 til 150 kg léttari en núverandi A4, verða útlínur hins nýja mýkri og loftmótstaða umtalsvert minni, sem aftur hefur í för með sér minni eldsneytiseyðslu. Þá þýða töpuðu kílóin ein og sér líka minni eldsneytiseyðslu.
Auk fjórhjóladrifs verður í boði tvinnútfærsla bílsins og verður sú líka í boði með nýja E-Quattro fjórhjóladrifinu. Drægi þess bíls á rafmagni einu saman verður 30-60 km, eftir aðstæðum, aksturslagi og hitastigi.
E-Quattro fjórhjóladrifið er í stuttu máli þannig að brunahreyfill knýr framhjólin en rafmótor afturhjólin. Sjá mynd.