Bílar með hjólamótorum frá 2010
Michelin Active Wheel System.
Þann 28. október í fyrra sögðum við frá byltingarkenndri uppfinningu frá Michelin hjólbarðaframleiðandanum sem ætti eftir að gerbreyta uppbyggingu bíla. Uppfinningin nefnist Active Wheel System og er í stuttu máli bílhjól þar sem fjöðrun, höggdeyfing, rafmótor (drifkraftur) og hemlar er allt sambyggt í einni heild. Nú er þessi byltingarkenndi búnaður á leið í fjöldaframleiðslu og nýr bíll með búnaðinum kemur á Evrópumarkað strax á næsta ári.
Hjá Michelin hefur verið um árabil unnið að tilraunum og þróun þessa nýja búnaðar. Sú vinna hefur farið hljótt því að þegar búnaðurinn var fyrst sýndur opinberlega á bílasýningunni í París í fyrrahaust kom hann flestum verulega á óvart. Á sýningunni voru einnig tveir bílar með þessum Michelin hjólabúnaði sýndir, annar sportbíll byggður af bílasmiðjunni Venturi og fólksbíllinn Will sem byggður var af Heulies í Frakklandi sem er sérhæfð rafbílasmiðja.
Mörgum finnst það liggja ljóst fyrir að hið aktíva hjól Michelin og rafgeyma- og rafmótortæknin sem nú er að ryðja sér rúms, muni bylta þeirri tækni sem bílar eru byggðir eftir og hafa verið byggðir nánast alla tíð. Smíði bíla og samsetning verði einfaldari en áður og með tímanum ódýrari en nú. Með því að hafa fjöðrunina og mótorana í hverju hjóli fyrir sig sparast ótrúlega mikið rými í bílnum sjálfum og smíði undirvagnsins verður miklu einfaldari. Í honum verða engar fjaðrir, gormar eða demparar, engar spyrnur, armar og jafnvægisstengur, engin hemlavökvarör þvers og kruss um bílinn því að hemlarnir eru rafdrifnir, enginn gírkassi, ekkert mismunadrif, engin drifsköft og driföxlar. Þar með sparast mjög mikið pláss og þyngd, hönnun bílsins með tilliti til árekstursþols verður líka einfaldari þegar ekki þarf að gera ráð fyrir þungum brunahreyfli, gírkassa, drifi og slíku og hvert það fer þegar högg kemur á bílinn. Þannig skapast ágætis rými í smábílnum Will þótt hann sé einungis 3,70 m á lengd. Farangursrými er bæði í húddinu og skottinu en líþíumrafgeymarnir eru í gólfinu.
Heuliez hefur nú tilkynnt að fjöldaframleiðsla á bílnum Will er í bígerð og á að hefjast strax á næsta ári. Fyrsta árið verða 5 þúsund bílar smíðaðir en muni eftir það aukast jafnt og þétt í takti við eftirspurn.
Hver drifmótor í Michelin hjólinu er 41 hestafl þannig að með drifi á báðum framhjólum er aflið 82 hö og sé hafður mótor í hverju hjóli yrði aflið um helmingi meira en það sem ætti að vera yfrið nóg í smábíl.
Mótorarnir gefa fulla vinnslu eða tog um leið og þeir byrja að snúast. Orkunýting þeirra verður um 90% samanborið við brunahreyfil sem nær á góðum degi um 20% orkunýtingu úr eldsneytinu. Rafhlöðurnar geyma orku sem duga til 350-400 km aksturs og verðið samkvæmt þeim sem voru til svara um bílinn á Parísarsýningunni verður 20-25 þúsund evrur.