Bílar og umferð standa nú þegar undir allri uppbyggingu og rekstri vegakerfisins
Drög að samkomulagi milli ríkis- og höfuðborgarsvæðisins um stórfellda uppbyggingu í samgöngum til að greiða fyrir umferð í borginni voru kynnt fyrir bæjarstjórum á höfuðborgarsvæðinu í gær.
Á fundi Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgönguráðherra, með fulltrúum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku þar sem kynnt var framtíðarsýn ríkis og sveitarfélaga um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu kom fram að veggjöld á helstu stofnæðum höfuðborgarsvæðisins verða tekin upp til að fjármagna samgönguframkvæmdir, þar með talið borgarlínu.
Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, hefur haft áhyggjur af áformum um nýja skatta á fjölskyldurnar í landinu ofan á þá 80 milljarða króna sem bíleigendur borgar nú þegar í formi skatta og gjalda á bíla og umferð. Veggjöld voru ekki á dagskrá fyrir síðustu kosningar, veggjöld eru heldur ekki inni í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Í upphafi ársins barst fjöldi umsagna frá almenningi til umhverfis- og samgöngunefndar þar sem hugmyndum um veggjöld er andmælt.
FÍB hefur margsinnis áréttað að bílar og umferð standa nú þegar undir allri uppbyggingu og rekstri vegakerfisins og gott betur. Engin þörf er á aukinni skattheimtu með vegtollum til að standa undir því. Ein staðreyndin er sú að orkuskiptin krefjast þess að ríkisvaldið hugi að nýjum leiðum til gjaldtöku af bílum og umferð sem miðast við afnot vegakerfisins. Lausnin felst ekki í vegtollum á stöku stað. Frekar að greitt verði í samræmi við ekna kílómetra. Slíkt gjald gæti tekið mið af álaginu sem ökutækið veldur vegakerfinu með þyngd sinni og þeim umhverfisáhrifum sem það hefur. Framkvæmd slíkrar gjaldtöku þarf ekki að vera flóknari eða dýrari en álestur á raforkumæla heimilanna.
Fram kemur á visir.is í umfjöllun um málið í dag að stýrihópur Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fundaði í morgun um samkomulag sveitarfélaga um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Drög að breyttu samkomulagi var sent á bæjarstjóra sveitarfélaga í gærkvöldi en samkvæmt heimildum visir.is er ekki um stórvægilegar breytingar að ræða.
Í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag spurði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, út í þessi áform.Ekki hefur enn gefist svigrúm til að kynna þessar breytingar fyrir þingmönnum en Sigmundur Davíð spurði hvort ráðherrann gæti hugsað sér að tekið verði upp gjald til að aka um vegi höfuðborgarsvæðisins og að það renni í borgarlínu.
Bjarni sagði ríkið nauðbeygt til að gjörbreyta allri gjaldtöku vegna samgangna í landinu því rafbílum hefði fjölgað svo mikið. Þessi orkuskipti kostuðu ríkið þrjá milljarða í eftirgjöf á virðisaukaskatti í fyrra til að fá inn umhverfisbíla. Þessir bílar færu um göturnar án þess að greiða þau gjöld sem falla á bíla sem reiða sig á jarðefnaeldsneyti. Sagðist Bjarni sjá þetta sem tækifæri þar sem Íslendingar gætu hætt að reiða sig á orkugjafa sem þarf að flytja inn til landsins með því að fara í orkuskipti í samgöngum.
Bjarni kemur inn á það hér að framan að rafbílum í landinu hafi fjölgað mikið. Þess má geta að samkvæmt nýjustu upplýsingum eru rafbílar í landinu um 3.500 og heildar bílaeign landsmanna telur um 267 þúsund bíla segir í tölum sem liggja frammi frá Samgöngustofu.
„Sem við sjáum fyrir okkur að hægt verði að veita almenningssamgöngum forgang. Það þarf að reisa þessa vegi þar sem hópferðabílar geta farið, eins og ég sé þetta, leigubifreiðar og jafnvel ökutæki þar sem þrír eða fleiri eru. Þetta ætti að greiða fyrir umferð. Aðalatriðið er það að samkomulagið sem er í smíðum er um stórfellda uppbyggingu á samgöngum á höfuðborgarsvæðinu til að greiða fyrir umferð,“ sagði Bjarni.