Bílar Rainiers í Monaco til sölu
Rainier fursti í Monaco, sem lést árið 2005, var mikill bílamaður og á 30 árum tókst honum að safna saman yfir 100 bílum af ýmsum tegundum og gerðum. Ekki eru þetta allt fokdýrir sport- og lúxusbílar heldur líka ósköp venjulegir bílar, litlir og stórir.
Nú vill sonurinn Albert núverandi fursti, selja hluta þessa bílasafns til að rýma til fyrir nýjum safngripum. Það verður gert á uppboði sem fram fer í Monaco þann 26. júlí nk. Þar verða 38 bílar úr safni Rainiers fursta seldir. Hér má sjá bílana og áætlað verð þeirra.
Bílarnir eru frá ýmsum tímabilum bílasögunnar. Sá elsti er Berliet C2 frá 1907 en einn sá yngsti er Mercedes Benz 500 SEC-AMG frá 1983, sérútbúinn fyrir Rainier fursta. Meðal „venjulegra“ bíla sem mörgum munu finnast áhugaverðir má nefna Peugeot 203 C frá 1958, tvo Citroen Traction Avant frá 1952 og 1955, Fiat 500 Abarth frá 1971, NSU Sport Prinz frá 1968 og Volkswagen bjöllu frá 1976. Sumir þesssara bíla eru sáralítið eknir. Benzinn fyrrnefndi er t.d. aðeins ekinn 8.408 kílómetra.