Bílarnir batna – áreiðanleiki þeirra vex

J.D. Power and Associates í Bandaríkjunum hefur birt nýja árlega langtímakönnun á gæðum og áreiðanleika þriggja ára gamalla bíla. Nýja könnunin sýnir að á heildina litið hafa bílar batnað og bilanatíðni lækkað. Japanskir bílar eru eins og löngum áður ofarlega á blaði og eru níu þeirra meðal þeirra bestu, hver í sínum flokki. En hreinræktaðir bandarískir bílar hafa greinilega stórbatnað því sjö þeirra eru meðal þeirra bestu og þrír evrópskir. Í fyrsta sinn um rúmlega áratugs skeið er það bandarískur bíll, Cadillac, sem reyndist vera bestur og hafa lægstu bilanatíðnina.

Bílar í Bandaríkjunum hafa batnað frá athugun síðasta árs en tiltrú bílakaupenda hefur ekki verið í réttum takti við  batann. Áreiðanleikarannsókn J.D Power er byggð á reynslu eigenda bílanna og nær til 198 bilanaþátta, eða nær alls sem bilað getur í bíl. Bilanatilfellin í hverjum þessara 198 þátta eru síðan vegin saman og metin út frá tíðni þeirra miðað við hverja 100 bíla. Því færri stig sem bíll fær, þýðir því að þess betri er hann. Bílaframleiðendur hafa greinilega í áranna rás tekið mark á þessari könnun og endurbætt bíla sína út frá niðurstöðum könnunarinnar. Þá er könnunin jafnframt mikilvægt verkfæri fyrir neytendur sem geta valið sér bíl út frá niðurstöðum hennar, bæði nýja bíla en ekki síður notaða. Bílarnir í rannsókninni eru að þessu sinni allir af árgerð 2007.

http://www.fib.is/myndir/JD-Power2010.jpg
 

En að þessu sinni leiðir könnunin í ljós að stórlega aukin gæði og áreiðanleiki bíla hefur í sumum tilfellum ekki ennþá skilað sér í meiri tiltrú neytenda og eftirsókn eftir bílunum. Þetta er áberandi með tegundirnar Cadillac, Ford, Hyundai, Lincoln og Mercury. Stjórnandi rannsóknarinnar segir að bílaframleiðendur gætu sér að skaðlausu reynt að flýta hugarfarsbreytingu bílakaupendaog auka tiltrú þeirra með því að bjóða t.d. betri og lengri ábyrgðir á bílunum og einstökum hlutum þeirra.

Toyota heldur áfram að’ vera traust bíltegund og Toyotabílar eru þeir bestu í fjórum flokkum bíla. Þessir bílar eru Highlander, Prius,Sequoia og Tundra. Bestu frá Honda, hver í sínum flokki eru svo CR-V, Fit, eða Jazz eins og hann heitir í Evrópu, og Ridgeline. Lincoln bílarnir Mark LT og MKZ eru þeir bestu hvor í sínum flokknum. Loks reynast Audi, BMW, Buick, Cadillac, Chevrolet, Ford, Lexus, Mazda, Mercedes-Benz og Mercury bestir hver í sínum gerðarflokknum.

En sú bíltegund sem best kemur út þegar stig allra undirgerða tegundanna eru reiknuð saman, er svo Porsche sem hefur verið í efsta sætinu síðan 2007. Lincoln hefur hins vegar frá könnun síðasta árs stigið upp um sex sæti og er nú næst efstur. Á eftir koma svo Buick, Lexus og Mercury. Þær gerðir sem lægsta bilanatíðni hafa yfirhöfuð að árgerð 2007 meðtalinni, eru frá Ford og General Motors. Þessir bílar eru Buick Lacrosse, Buick Lucerne, Cadillac DTS, Ford Five Hundred, Lincoln MKZ, Mercury Milan, og Mercury Montego. Og bestur meðal þeirra bestu er svo Cadillac DTS með einungis 76 þjónustutilvik á hverja 100 bíla.

Í heild hefur áreiðanleiki bíla í Bandaríkjunum batnað um sjö prósent frá könnun síðasta árs. Þjónustutilvik eru nú 155 á hverja 100 bíla en voru í fyrra 167. Í könnuninni nú reyndist nauðsynlegt að skipta út hlut eða hlutum í bílunum í 65 prósentum þjónustutilvikanna á móti 68 prósentum í könnun síðasta árs.

Í könnuninni nú bárust svör frá 52,000 upprunalegra eigenda bíla af árgerð 2007. Könnunin fór fram á tímabilinu okt.-des.  á sl. ári.