Bílasala á Íslandi gekk vonum framar
Bílasala á Íslandi gekk vonum framar á síðasta ári sem var það sjöunda hæasta frá árinu 1972. Blikur voru á lofti í ársbyrjun því heimfaraldurinn hafði sett bílaframleiðslu í uppnám. Stríðið í Úkraínu setti ennfremur strik í reikninginn þar sem hægt hafði verulega á bílaframleiðslu.
Skortur á íhlutum og bíðtími hafði lengst. Samt sem áður gekk bílasala hér á landi vel og eftirspurnin eftir rafbílum heldur áfram að aukast. Alls voru nýskráningar fólksbifreiða á síðasta ári 16.685 en árið þar á undan, 2021, voru þær 12.789. Sala jókst því um 30,5% miðað við sölu nýrra fólksbíla árið 2021.
Hlutfall orkugjafa seldra nýrra fólksbifreiða 2022 var mest í hreinum rafmagnsbílum, alls 33,5%. Tengiltvinnbílar komu þar á eftir með 22,6% hlutdeild og hybrid 17,8%. Dísilbílar voru með 14,2% hlutdeild og jókst aðeins á milli ára og bensínbílar voru með 11,9% hlutdeild.
Þegar allt er á botninn hvolft verður árið 2022 að teljast mjög gott miðað við allt sem á undan gekk og þær hremmingar sem bílaframleiðendur um allan heim fóru í gegnum.
Mikil óvissa hefur ríkt um breytingar sem lúta að ýmsum lögum, skatta og gjöld á bifreiðar. Bílaumboðin hér á landi hafa ekki orðið vör við mikinn samdrátt af þeim völdum fram að þessu. Spurningin er hins var hvað gerist ef efnahagsástandið heldur áfram á sömu braut til lengri tíma litið.
Þegar litið er til sölu einstakra bílamerkja á árinu 2022 var Toyota söluhæsti bíllinn. Alls voru 2.752 fólksbílar af Toyota-gerð seldir árið 2022 á móti 1.775 fólksbílum frá Kia og 1.452 Hyundai-bílum. Kia var aftur á móti söluhæsta bílamerkið ári 2021. Þess má geta að Toyota hafði verið söluhæsti bíllinn í ríflega þrjá áratugi samfleytt þar á undan.