Bílasala dregst stórlega saman en hreinorkubílum fjölgar verulega
Kórónuveiran hefur haft veruleg áhrif á skráningu nýrra fólksbíla hér á landi. Bílaleigur líkt og ferðaþjónustan í heild hafa glímt við mikinn samdrátt. Í nokkur ár fór um helmingur nýskráðra fólksbíla til bílaleiga en sú sala hefur hrunið í ár. FÍB hefur tekið saman tölfræði úr ökutækjaskrá Samgöngustofu um sölu fólksbíla hér á landi eftir orkugjöfum yfir fimm hálfsárs tímabil frá 2018 til júníloka í ár.
Árið 2018 voru nýskráðir 17.971 nýir fólksbílar sem er vel yfir meðaltali síðustu ára en metár var í bílasölu 2017 þegar 21.330 fólksbílar voru nýskráðir. Árið 2019 fór salan niður í 11.700 bíla. Verulega hefur dregið úr nýskráningum í ár samanborið við síðustu tvö ár. Fyrstu sex mánuðina í ár var búið að nýskrá 4.193 fólksbíla en talan var komin í 6.155 bíla í gær, 27. ágúst. Samhliða samdrætti hefur nýskráning eftir orkugjöfum breyst mikið. Hlutfall hreinorkubíla í nýskráningum hefur stóraukist á sama tíma og skráning hefðbundinna sprengihreyfilsbíla hefur snarminnkað.
Fyrstu sex mánuði ársins 2018 var ríflega 82% nýskráðra fólksbíla bensín- eða dísilknúnir. Hlutfall nýrra bensín- og dísilbíla var komið niður í 43% af heildarsölunni fyrstu sex mánuðina í ár. Hreinir rafbílar voru 2,4% af nýskráðum fólksbílum á fyrri helmingi ársins 2018 en 6,6% á seinni helmingi ársins. Rafbílar voru 5,8% fyrstu sex mánuðina 2019 en fóru í 11,1% á seinni helming ársins. Á fyrri helmingi ársins 2020 var hlutfall rafbíla af nýskráningum komið í 25,5%. Fyrstu sex mánuðina 2018 voru nýskráðir 284 rafbílar en 1.069 á sama tímabili í ár. Nýskráning tengiltvinn- og tvinnbíla hefur aukist sem hlutfall af heildarsölu en vegna sölusamdráttar um að ræða svipað marga bíla.
Mikill samdráttur í nýskráningum er áhyggjuefni en það er óhætt að fagna þeim umskiptum sem hafa orðið varðandi auknar vinsældir hreinorkubíla. Tesla sem selur bara hreina rafbíla var önnur söluhæsta tegund fólksbíla hér á landi fyrstu sex mánuðina í ár. Undir lok ágúst var Tesla komin í fjórða sætið yfir söluhæstu tegundirnar. Fram til 27. ágúst í ár var hlutfall fólksbíla sem nýta rafmagn sem orkugjafa, þ.e. hreinir rafbílar, tengiltvinn- og tvinnbílar, um 51% af nýjum bílum. Ísland er í kjörstöðu varðandi fjölgun rafbíla. Við búum við umhverfisvæna og sjálfbæra raforkuframleiðslu sem upplagt er að nota til að knýja bíla. Innviðirnir eru að styrkjast og það er þjóðhagslega arðbært fyrir samfélagið að geta nýtt hreina innlenda orku í samgöngum á landi.