Bílasala minnkar í Evrópu

http://www.fib.is/myndir/Bilarod.jpg


Í maí sl voru 1,44 milljónir fólksbíla nýskráðir í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Það er 1,6% færri nýskráningar en í sama mánuði í fyrra. Á tímabilinu jókst hins vegar bílasala í Noregi og Eystrasaltslöndunum. Þá jókst sala á bílum af gerðunum Honda, Mini, Dacia og Volvo.

Það sem af er árinu – frá janúar til maí – voru nýskráðir alls 6.994.557 fólksbílar á Evrópska efnahagssvæðinu en það er 0,5% samdráttur miðað við sama tíma í fyrra. Mest jókst bílasala í Lettlandi, eða um 55,8%, í Eistlandi varð aukningin 36,5% og í Litháen 28,7%. Vel gekk einnig í Noregi þar sem nýskráningum fjölgaði milli ára um 25,9%, Búlgaríu þar sem aukning varð 24,2% og í Rúmeníu þar sem hún var 23%. 6% aukning varð á Ítalíu og 2,2% aukning varð í Bretlandi. Samdráttur varð langmestur á Íslandi eða 26,4%. Næst mestur varð samdrátturinn í Þýskalandi eða 9,6% og 2,4% í Frakklandi. http://www.fib.is/myndir/Evrob%EDlasala2007.jpg

Sú bílategund sem mest bætti sig á tímabilinu jan.-maí miðað við sama tímabil í fyrra er Honda. Salan á Honda jókst um 15,9%, á Mini um 13,7% og Dacia (aðallega Dacia Logan) um 12,9%. Í fjórða sæti varð svo Volvo með 10,7% aukningu. Aðrar bílategundir sem bættu hlut sinn voru Toyota með 7,7%, Fiat með 7,5%, Lancia með 7,1% og Audi með 5,2%.

Hjá Smart hefur árið byrjað illa. Nýskráningum á Smart bílum fækkaði það sem af er árinu miðað við sama tíma í fyrra um hvorki meira né minna en 36,8%. Næst verst gekk hjá Jaguar þar sem fækkunin varð 19,9% og hjá Nissan 15,4% og Renault 11,9%. Aðrir sem búa við skertan hlut eru Mazda með 9,7%, Saab með 9,6%, Hyundai með 7,7%, Kia með 6% og BMW með 3,4%.

Mest selda bíltegundin í Evrópu í ár er Volkswagen með 690.665 nýskráningar. Næstur er Opel/Vauxhall með 588.094 og Ford með 583.340 nýskráningar. Í fimmta sæti er Peugeot med 500.827 nýskráningar það sem af er árinu.