Bílasalar í Noregi geta verið sáttir við sinn hlut
Bílasala almennt um allan heim átti undir högg að sækja á nýliðnu ári og er kórónaveirufaraldrinum þar aðallega kennt um. Norðmenn geta aftur á móti verið sáttir við niðurstöðu ársins hvað nýskráningar varðar. Þar í landi seldust alls 141.412 nýir bílar og er það innan við þúsund bílum minna en á árinu 2019 sem var metár.
Bílasala í Noregi var slök framan af árinu og fátt benti til þess að hún myndi verða nálægt sölunni frá árinu á undan. Undir lok ársins tók hún mikinn kipp og sérstaklega í desember var hún sérlega góð. Yfir helmingur nýskráninga eru rafbílar og hefur salan í þeim aldrei verið meiri.
Volkswagen er langstærsta vörumerkið með 13,6 prósenta markaðshlutdeild - en var 13,3 prósent árið 2019. Toyota í öðru sæti er með 9,1 prósent en Audi (7,3%) náði þriðja sæti í fyrsta skipti. Á eftir koma BMW, Volvo og Tesla. Sala í Tesla var mikil í desember en þá seldust í Noregi yfir fjögur þúsund bílar af þeirri tegund.