Bílasamlag með Smart bílum í Stokkhólmi
Næsta haust tekur bílasamlag til starfa í Stokkhólmi í Svíþjóð. Bílarnir verða allir af gerðinni Smart og til afnota innan borgarinnar fyrir hvern þann sem skráir sig í samlagið. Leigutakar finna og leigja bílana í gegn um farsíma sína í gegn um sérstakt forrit eða -app, og geta síðan notað þá að vild og skilað á hverju því samlagsstæði sem best hentar. Stæðin verða fjölmörg víðsvegar um borgina.
Hugsunin er sú að litlu Smart bílarnir losi þá sem erindi eiga milli húsa og hverfa í stórborginni undan því að aka inn í borgarumferðarþrengslin á eigin bílum og reyna síðan með tilheyrandi fyrirhöfn og kostnaði að finna staði til að leggja bílnum hér og þar. Smart-bílana verður fyrst og fremst að finna við stoppistöðvar neðanjarðarlestanna. Gert er ráð fyrir því að u.þ.b. klst. notkun geti kostað kring um 3.000 ísl. kr.
Það er alþjóðlegt fyrirtæki sem heitir Car2go sem stendur að þessu verkefni í Stokkhólmi en fyrirtækið rekur svona bílasamlög í mörgum evrópskum og bandarískum stórborgum og eru meðlimir samlaga fyrirtækisins orðnir yfir milljón talsins. Car2go er dóttufyrirtæki Daimler, móðurfyrirtækis Mercedes Benz og Smart. Farsímaforritið eða appið sem meðlimir samlagsins þurfa á að halda í farsíma sína er frá þýsku hugbúnaðarfyrirtæki sem heitir Moovel.