Bílasamstarf springur í loft upp
Reuters fréttaveitan greinir frá því nú í morgun að Suzuki Motor Corp. ætli að slíta öllu samstarfi við Volkswagen. Samstarfið hófst með því að Volkswagen keypti tæplega 20% hlut í Suzuki.
Í samningum aðila fólst m.a. að samstarf yrði í tækni- og viðskiptamálum, ekki síst er varðar smábíla þar Suzuki kann vel til verka. Þá fengju báðir aðgang að sölukerfum hvors annars. Þannig hefði Volkswagen væntanlega notið góðs af mjög sterkri stöðu Suzuki á Indlandsmarkaði þar sem sagt er að hátt í annar hver seldur nýr bíll sé Suzuki.
Það er hins vegar eins og samstarf VW og Suzuki hafi aldrei komist á flug. Pirringur og ergelsi Suzukifólks hefur verið að koma meir og meir upp á yfirborðið og nafnlausar heimildir innan Suzuki saka Volkswagenmenn um að heimta aðgang að öllu hjá Suzuki en ekki viljað sýna nein spil á eigin hendi. Reuters segir að í tilkynningu frá Suzuki segi að óskað verði eftir því við stjórn Volkswagen að öll 19,9 prósent hlutabréf VW í Suzuki verði seld. Suzuki á samkvæmt fréttinni 1,5 prósent í VW.
Fyrir skömmu tilkynnti Suzuki um að samstarf væri að hefjast við Fiat á Ítalíu. Í því fælist m.a. að Suzuki kaupir dísilvélar af Fiat. Þegar samstarfið við VW var að hefjast upphaflega var sagt að meginávinningur Suzuki yrði einmitt aðgangur að dísilvélatækni Volkswagen.