Bílastæðasjóður innleiðir rafrænt eftirlit

Bílastæðasjóður hefur um tíma undirbúið rafrænt eftirlit með stöðvun og lagningu bifreiða í borgarlandi. Fyrsta skrefið var tekið fyrir rúmu ári, þegar hætt var að prenta út miða til að setja undir rúðuþurrku. Nú er komið að næsta skrefi, myndavélaálestri að því er fram kemur í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar.

Eftirlitið verður rafrænt, ekið verður um og notaður sjálfvirkur bílnúmera álestur til að finna út hvort búið sé að greiða fyrir ökutæki eða til að athuga hvort því sé lagt löglega.

Eitthvað verður áfram um eftirlit gangandi stöðuvarða en ákvörðun um hvort sett sé gjald á bifreið eða ekki færist að langmestu leyti yfir á stöðuverði sem vinna í bakendakerfi á skrifstofu. Þegar ákvörðun um gjald er að mestu leyti komin úr höndum stöðuvarða á vettvangi er það vonin að starfsaðstæður þeirra verði betri.

Stöðvunarbrotagjöld hafa síðustu árin birst í heimabanka og á Island.is um leið og gjald hefur verið stofnað. Þar sem vinnsla gjaldanna færist yfir í bakendakerfi þá mun í rafrænu eftirliti verða einhver töf á útgáfu stöðvunarbrotagjaldanna, í einhverjum tilvikum birtist gjaldið ekki fyrr en næsta dag.

Áfram verður sá möguleiki fyrir þá sem telja sig ekki hafa átt að fá gjald að óska eftir endurupptöku á heimasíðu Bílastæðasjóðs. Sambærilegt eftirlit er að ryðja sér rúms víða í nálægum löndum og með aukinni sjálfvirkni er vonast til að rangar álagningar muni minnka verulega frá því sem nú er.

Stefnan er alltaf sú að sem flestir greiðir fyrir stæðin og leggi löglega og á þann hátt muni þörf fyrir eftirlit minnka.

Gjöld vegna stöðvunarbrota:

  • 4.500 kr. – Aukastöðugjald (ef ekki er greitt fyrir gjaldskylt stæði).
  • 10.000 kr. – Stöðubrotagjald (lagt ólöglega).
  • 20.000 kr. – Ólögleg notkun stæðis fyrir hreyfihamlaða.
  • Afsláttur: 1.100 kr. afsláttur ef greitt innan þriggja virkra daga.
  • Hækkun: Gjald hækkar um 50% eftir 14 daga og aftur um 50% eftir 28 daga ef það er ekki greitt.
  •  

Hvernig á að greiða fyrir stæði?