Bílasýningin Allt á hjólum Í Fífunni
Bílgreinasambandið stendur fyrir stórsýningu á bílum og tækjum í Fífunni dagana 4.- 5. maí nk. Sýnt verður á 4.000 fm og eru sýnendur öll helstu bílaumboð landsins ásamt fyrirtækjum sem bjóða upp á vörur og þjónustu sem á einn eða annan hátt tengjast farartækjum.
FÍB verður með sýningarbás á þessari fyrstu bílasýningu á Íslandi um langt skeið. Auk þess að kynna félagið og kosti félagsaðildar verður áhersla lögð á flest það er lýtur að umferðaröryggi. FÍB er virkur þátttakandi í umferðaröryggisverkefnum erlendra systurfélaga sinna eins og Euro NCAP öryggisúttekta á vegum, Euro NCAP árekstrarprófana á nýjum bílum o.fl. Á sýningarsvæði FÍB verður hægt að skoða Euro RAP bifreið félagsins og tækjabúnað hennar og tæknistjóri Euro RAP á Íslandi, sem jafnframt er varaformaður FÍB verður á staðnum til að miðla fróðleik og upplýsingum.
Á sýningunni verður að að öðru leyti að finna nýjustu bíla á markaðnum, auk þess sem fjöldi bíla verður sérstaklega fluttur til landsins í tilefni sýningarinnar. Einnig verður að finna á sýningunni hjólhýsi, fellihýsi, fjármögnunarfélög sem sérhæfa sig í lánveitingum til bíla-og tækjakaupa, olíufélag, auk aðila sem bjóða upp á alls kyns rekstrarvörur sem og menntunaraðila í bílgreininni.
Bílasýningar á vegum Bílgreinasambandsins voru algengar á árunum í kringum 1970-1984. Sambandið endurvakti þennan atburð vorið 2011 og komu þá alls um 15.000 gestir á sýninguna. Sýningin þá (sem myndin er frá) og í ár hafa það fram yfir fyrri sýningar að nú eru ekki einvörðungu sýndar bifreiðar, heldur einnig nýjungar sem og tengdar vörur eins og segir hér að ofan.
Ásamt því að geta komið og skoðað það nýjasta á markaðnum geta sýningargestir fengið sér hressingu í veitingasölu og eflaust fundið sér eitthvað spennandi við hæfi til að dást að á þessari stórglæsilegu sýningu, jafnt ungir sem aldnir og því tilvalið að taka alla fjölskylduna með sér.
Aðgangur að sýningunni er ókeypis.
Opnunartími hennar verður sem hér segir:
Laugardagur 4. maí frá kl. 11-18
Sunnudagur 5. maí frá kl. 12-17