Bíleigendur hvattir til að skrá inn kílómetrastöðuna með reglulegu millibili
Fyrri notkun vetnis, raf- og tengiltvinnbíla veldur háum kílómetragjaldsreikningum sumra eigenda slíkra bíla. Ýmsum hefur brugðið yfir fjárhæðinni. Sérfræðingur hjá FÍB segir að í sumum tilfellum megi rekja háa reikninga sumra rafbílaeigenda fyrir kílómetragjald til fortíðar bílsins að því er fram kemur í umfjöllun um málið á ruv.is
Fyrsti gjalddagi kílómetragjaldsins var 1. febrúar og á spjallsíðum rafbílaeigenda má sjá að mörgum virðist brugðið yfir fjárhæð reikningsins. Þar má sjá mismikla ánægju með hvað greiða þarf fyrir þennan fyrsta mánuð af nýrri skattheimtu fyrir rafbílaeigendur.
Björn Kristjánsson, tækniráðgjafi hjá FÍB, segir félagið almennt ánægt með hvernig til hefur tekist og að fáar kvartanir hafi borist.
„Það er raunverulega tekin kílómetrastaðan sem var slegin inn núna í janúar. Síðan er tekinn meðaltalsakstur, sem hefur verið við nýskráningu bifreiðarinnar eða í seinustu skoðun bílsins. Og í sumum tilfellum þá til dæmis hafa orðið eigendaskipti eða eitthvað þvíumlíkt á milli.“
Hafi einstaklingur til dæmis keypt mikið ekna bílaleigubifreið geti reikningur janúarmánuðar slagað hátt í 30 þúsund krónur. Þann reikning þurfi að greiða.
„Þú getur slegið inn nýja kílómetratölu, eða uppfært kílómetratöluna á þrjátíu daga fresti. Fyrir viðkomandi aðila sem þykir reikingurinn ekki í samræmi við sinn akstur mánaðarlega, þá getur hann slegið aftur inn töluna og mun fá endurreikning á meðalakstrinum sínum.“
Kílómetragjaldið miðar við meðalakstur og reiknast frá tveimur síðustu kílómetraskráningum, eða áætlun ríkisskattstjóra á meðalakstri séu ekki til tvær skráningar. Fyrir einstaklinga eru það 1.167 kílómetrar á mánuði sem leiðir af sér um það bil sjö þúsund króna reikning fyrir rafbílaeiganda og 2.300 króna fyrir eigendur tengiltvinnbíla.
Björn Kristjánsson segir í sérstökum tilellum hægt að fara fram á endurútreikning á island.is. Hann segir eina skráningu heimilaða á þrjátíu daga fresti og áréttar að fyrsta skráningin í janúar gildi.
Björn hvetur bíleigendur til að skrá inn kílómetrastöðuna með reglulegu millibili og ættu þannig að vera komnir með góða stöðu þegar fram líða stundir. Kílómetragjaldið líkist aflestri hitavatns- eða rafmagnsmæla, staða sé tekin einu sinni á ári, en öllum sé frjálst að skila inn álestri hvenær sem er.