Bíleigendur standa undir gróða tryggingafélaganna
Tryggingafélögin tilkynna hvert á fætur öðru um fádæma góða afkomu á síðasta ári. Árin þar á undan voru ekki síðri.Þessi mikli hagnaður skrifast alfarið á það að iðgjöld bílatrygginga, einkum ábyrgðartrygginga, erumun hærri en þörf er fyrir.
Eins og fram kemur í FÍB blaðinu, sem hægt er nálgast rafrænt á heimasíðunni og berst félagsmönnum eftir helgina, hafa iðgjöldin hækkað jafnt og þétt á sama tíma og umferðarslysum fækkar.
Tölurnar eru sláandi; frá 2015 hafa iðgjöldin hækkað um 38% en slösuðum í umferðinni hefur á sama tíma fækkað um 23%.
Minni kostnaður og hærri tekjur þýðir bara eitt: aukinn hagnað. Það eru bíleigendur sem standa beint undir þessum hagnaði. Engin verðsamkeppni svo heitið geti ríkir á milli tryggingafélaganna. Fjármálaeftirlit Seðlabankans styður tryggingafélögin dyggilega þegar kemur að ofteknum iðgjöldum.
Árum saman hefur fjármálaeftirlitið hvatt félögin ýmist til að hækka iðgjöld eða gæta þess vel og vandlega að fara ekki í verðsamkeppni. Nú síðast hvatti fjármálaeftirlitið tryggingafélögin til að ganga samt hægt um gleðinnar dyr og fara sér ekki að voða í arðgreiðslum.