Bíleigendur verða harðast fyrir barðinu á skattheimtugleði ráðherra
Álögur á bíleigendur um áramótin hækka mun meira en sem nemur verðlagshækkunum, samkvæmt bandormi ríkisstjórnarinnar, sem Alþingi samþykkti fyrir helgi. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, segir skattahækkanirnar bitna verst á íbúum dreifbýlisins, sem þurfa að sækja þjónustu um langan veg. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.
En eins og svo oft áður þá eru það bíleigendur sem verða harðast fyrir barðinu á skattheimtugleði ráðherra, það verður dýrara eftir áramót að kaupa og eiga bíl og svo auðvitað að dæla á hann bensíni.
Skattahækkun á nánast alla þætti í bifreiðaeign landsmanna
„Þetta eru bara álögur á álögur ofan. Skattahækkun á nánast alla þætti í bifreiðaeign landsmanna,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, sem segir þessar hækkanir langt umfram verðlagshækkanir. Nú um áramót var lágmarksfjárhæð bifreiðagjalds hækkuð úr 7.540 kr. upp í 15.080 kr. fyrir hvert gjaldtímabil. Breytingin hefur mest áhrif á bifreiðagjald ökutækja með litla eða enga skráða koltvísýringslosun eins og sparneytna bíla og rafmagnsbifreiðar. Þess má og geta að bensín- og olíugjald hækkar um 7,7%.
Með hækkun krónutölugjalda hyggst ríkið ná 5,3 milljörðum króna, en bara það þýðir 0,2 prósenta vísitöluhækkun og þar með hækkun vísitölutengdra húsnæðislána.
Bensínlítrinn hækki um 8 krónur og 60 aura
Runólfur Ólafsson segir hækkun eldsneytisskatta þýða að bensínlítrinn hækki um 8 krónur og 60 aura og olían eitthvað minna. Hærri vörugjöld þýði að nýir bílar hækki að lágmarki um fimm prósent um áramótin. Þá muni bíleigendur finna verulega fyrir 2,2 milljarða hækkun bifreiðagjalds, sem innheimt er tvisvar á ári.