Bílgeymirinn gefst upp fyrir kuldanum
Það er kalt um mestallt landið í dag og ein afleiðing kuldans er sú að afköst rafgeyma snarminnka. Þegar svo á að grípa til bílsins er rafgeymirinn svo tæpur að bíllinn fer ekki í gang. Starfsmenn FÍB aðstoðar hafa fundið fyrir þessu nú í morgun því beiðnir um ræsiaðstoð hafa hrannast upp og er verið að vinna sig í gegn um þær þegar þetta er ritað.
Síðustu árin hafa rafkerfi bíla orðið stöðugt stærri og flóknari og alls konar tækjum og búnaði bílunum sem ganga fyrir rafmagni hefur fjölgað. Fyrst komu afturrúðuhitarar sem eyða móðu og ísingu af afturrúðum, síðan sætahitarar, fyrst í ökumannssæti en síðan í einu eða fleiri farþegasætum, rafmagnsrúðuvindur, alls kyns tölvu- og tæknibúnaður sem m.a. stjórnar gangi bílsins og fleira og fleira.
Allt þetta hefur þýtt það að álag á rafala og rafgeyma bíla hefur margfaldast. Allur þessi rafbúnaður krefst mikillar orku. Sjálf ræsingin tekur mjög mikinn straum af geyminum og því meiri sem kaldara er. En þegar bíllinn er svo kominn í gang er miðstöðin gangsett, þá rúðuhitarinn, sætahitarar og full ljós kveikt. Þegar svo við bætist að bíllinn er aðeins notaður á stuttum vegalengdum þá hefur rafallinn hreinlega ekki undan að halda hleðslunni í horfinu. Og smám saman lækkar orkustaðan á geyminum og svo gerist það allt í einu, sérstaklega þegar jafn kalt er og nú, að geymirinn gefst upp og bíllinn fer ekki í gang. Þá eru góð ráð dýr og ekkert annað að gera en að kalla eftir aðstoð.
Vegna aukins og vaxandi álags á rafgeyma og rafala bíla hefur endingin styst. Fyrir þetta 2-4 áratugum gátu geymar enst í allt að áratug. Í dag má reikna með að endingin sé 2-4 ár. Endingin fer talsvert eftir því hvort bíllinn er mest notaður stuttan tíma í senn og ræstur oft, eða hvort hann er notaður lengi í senn. Gamlir hálfhlaðnir og slappir geymar geta svo sem slampast nokkuð lengi eða þangað til vetrarkuldar og frosthörkur eins og nú ganga í garð, þá gefast þeir endanlega upp. Þá gengur mesti endurnýjunartími ársins í garð, þegar margir hreinlega neyðast til þess að endurnýja gamla hálfslappa geyminn.
En til að komast sem mest hjá vandræðum þá ættu auðvitað sem flestir bíleigendur sem eru með meira en árs gamla geyma í bílum sínum að fá afköst þeirra mæld að haustinu áður en verulega tekur að kólna. Þá er ekki verra að tengja geyminn við hleðslutæki og fullhlaða hann af og til, t.d. aðra til fjórðu hverja viku yfir kaldasta vetrartímann. Með því móti má lengja líf geymisins og komast hjá vandræðum.