Bílhluturinn dýrari eftir niðurfellingu vörugjalds !
Í ljós er komið að full þörf er á því að fylgjast vel með því hvort lækkun vörugjalda á bifreiðavarahluti skili neytendum lægra vöruverði eða ekki. Ágúst Ú. Sigurðsson félagsmaður í FÍB þarf að endurnýja eldsneytisgeyminn í Galloper-jeppa sínum. Um miðjan desember sl. hringdi hann í umboðið (BL) og var sagt að geymirinn væri ekki til á lager en myndi kosta ca. 98 þúsund kr. hingað kominn. Ágúst ákvað því að bíða fram yfir áramótin þegar vörugjalda– og VSK-breytingar fjárlaga væru gengnar í gildi. Það eru þær nú og í dag hringdi hann og spurði umboðið aftur. Svörin voru þau að tankurinn væri ekki til á lager en pöntunartími væri um ein vika. En Ágústi til mikillar undrunar hafði eldsneytisgeymirinn ekki lækkað heldur hækkað í verði um þúsund kall og átti nú að kosta 99 þúsund krónur.
Þegar Ágúst spurði afgreiðslumann umboðsins hvernig það mætti vera nú þegar hluturinn bæri ekki lengur vörugjöld og VSK hefði auk þess lækkað, taldi sá sem fyrir svörum var, að hugsanlegt væri að engin vörugjöld hefðu áður lagst á eldsneytistanka. Hann væri þó ekki viss.
Af þessu tilefni hafði FÍB samband við embætti tollstjóra sem gaf þær upplýsingar að á eldsneytisgeymum í bíla hefði áður lagst 15% vörugjald sem nú væri fallið brott. Jafnframt var upplýst að sumir varahlutir í bíla hefðu áður vissulega verið undanþegnir vörugjöldum, eins og t.d. eldsneytisdælur, legur og tannhjól og vélahlutir eins og legur og stimplar. En það var semsé skýrt að eldsneytistankar hefðu borið 15% vörugjald sem nú væri fallið brott.
Því er staða þessa máls eftirfarandi: Miðað við einnar viku pöntunar/afgreiðslutíma þá er ljóst að umboðið myndi panta tankinn frá lager í Evrópu og þá greiða hann í evrum en gengi evru er mjög svipað í dag og það var um miðjan des. sl. Þá leggst 15% vörugjald ekki lengur á tankinn sem átti að kosta 98 þús. kr. um miðjan desember og VSK (sem lagðist ofan á kaupverð +vörugjald + flutningskostnað) hefur lækkað úr 25,5 í 24%. Miðað við áætlað verð tanksins um miðjan desember sl. ætti tankurinn því nú að vera ríflega 13 þúsund krónum ódýrari í dag.