Bíll ársins 2008 í Evrópu 19. nóvember
08.10.2007
Af þeim 33 bílum sem tilnefndir voru til heiðurstitilsins Bíll ársins 2008 í Evrópu hafa nú sjö bílar verið valdir í úrslit. Á þessari stundu virðist líklegt að Fiat 500 smábíllinn hreppi hnossið, en Fíatinn keppir við Ford Mondeo Mercedes Benz C-línuna, Peugeot 308, Nissan Qashqai, Kia cee´d og Mazda 2.
Hingað til hafa bílar frá Asíu átt fremur erfitt uppdráttar í vali á bíl ársins í Evrópu en að þessu sinni eru hvorki meira né minna en þrís asískir bílar í úrslitum, eða þeir þrír síðastnefndu.
Erlendir fjölmiðlar sem fjalla um bíla eru flestir á því að Fiat 500 verði bíll ársins í Evrópu í ár. Ótrúlegur áhugi er fyrir bílnum í Evrópu og þegar hann var kynntur í sumar var þvílíkt húllumhæ að aldrei hefur annað eins sést í tengslum við komu nýs bíls á markað. En þessi nýi smábíll lofar óneitanlega góðu: Hann hefur þegar verið árekstursprófaður hjá EuroNCAP og hlaut þar fimm stjörnur eða fullt hús, hann þykir góður í akstri, eyðslugrannur og fallegur á að llíta. Ef Fíatinn vinnur í ár verður það í níunda sinn sem bíll frá Fiat vinnur titilinn í þau 42 ár sem bíll ársins í Evrópu hefur verið valinn.