Bíll ársins 2016 í Danmörku
Sá félagsskapur danskra blaðamanna sem fjallar um bíla og samgöngur hefur valið Opel Astra bíl ársins 2016 í Danmörku. Í öðru sæti varð Volvo XC90 sem íslenskir bílablaðamenn völdu bíl ársins á Íslandi. Mazda CX-3 varð í þriðja sæti hjá Dönunum.
Í dönsku nefndinni sem velur bíl ársins í Danmörku eiga 19 blaðamenn frá helstu fjölmiðlum landsins sæti, þar af eru tveir frá fréttamiðlum FDM, systurfélagi FÍB. Hinn nýja kynslóð Opel Astra var valinn bíll ársins með miklum yfirburðum. Hann hlaut 140 stig, Volvo XC90 í öðru sætinu fékk 99 stig og Mazda CX-3 í þriðja sætinu fékk 88 stig.
Opel Astra er bíll af millistærð, gjörbreyttur frá fyrri árgerð. Hann er mun rúmbetri, sérstaklega er rýmra um fólkið í aftursætinu en var í eldri gerðinni. Ennfremur er bíllinn verulega léttari en sá eldri sem þýðir að hann er bæði sparneytnari og sneggri. Þar við bætist að vélarnar sem í boði eru, hafa verið uppfærðar og gerðar sparneytnari og frískari. Loks er það verðið á Opel Astra í ofurbílaskattaríkinu Danmörku sem telst óvenju hagstætt. Að öllu samanlögðu varð það því niðurstaða dómnefndarinnar að hinn nýi Opel Astra væri besta bílafrétt komandi árs.
Volvo XC90 þótti sannarlega ágætis bíll. Hann er uppfullur af hverskonar öryggisbúnaði og er samkvæmt nýrri árekstrarprófun Euro NCAP lang öruggasti nýi bíllinn um þessar mundir. En hann er mjög dýr í Danmörku og ekki á hvers manns færi að eignast hann þar sem verðið er frá 1,1 milljón DKR (20,8 millj. ÍKR).