Bíll ársins á Íslandi 2008
Land Rover Freelander 2.
Bandalag íslenskra bílablaðamanna tilkynnti sl. föstudag um að Land Rover Freelander 2 hlyti að þessu sinni titilinn Bíll ársins og afhenti Kristján Möller samgönguráðherra fulltrúum B&L farandgripinn Stálstýrið.
Land Rover Freelander 2 er gerbreyttur frá eldri gerð og í rauninni nýr bíll. Freelanderinn er afar þægilegur í akstri og umgengni með ágæta aksturseiginleika á vegum og götum og líka góða eiginleika sem torfærubíll þótt ekki sé hann jeppi í hinum hefðbundna skilningi, það er að segja með hátt og lágt drif og allt það.
Hér á landi og á flestum öðrum Evrópumörkuðum er Freelanderinn nýi boðinn með tveimur vélargerðum: Sú fyrri er 2,2 l túrbínudísilvél frá PSA (Peugeot/Citroen), bæði öflug og hljóðlát en sparneytin. Aflið er 160 hö og vinnslan er 400 Nm. Auk þessarar dísilvélar er í boði sex strokka línuvél sem upphaflega kemur frá Volvo. Hún er 3,2 lítra og 233 ha. Báðar vélarnar eru þverstæðar í vélarhúsinu.
Líklegast er að dísilvélin verði fyrsti kostur flestra kaupenda LandRover Freelander 2 vegna þess hve hagkvæm hún er en jafnframt öflug. Uppgefiin meðaleyðsla er einungis 7,5 lítrar og fyrir utan sparneytnina er vélin mjög „hrein.“ Á útblásturskerfinu er t.d. sótagnasía og sjálfvirkur hreinsibúnaður hreinsar útblásturskerfið og brennir sótagnirnar þegar þær hafa náð að safnast fyrir. Gírkassarnir sem í boði eru, eru sex gíra, bæði sjálfskiptir og handskiptir.