Bíll ársins á Íslandi er forstjórabíll ársins í Danmörku
Renault Talisman sem hérlendir bílablaðamenn völdu bíl ársins 2017 á Íslandi nýlega, hefur verið kjörinn forstjórabíll ársins 2017 í Danmörku. Danska verslunarráðið skipar í dómnefndina sem árlega útdeilir þessum titli.
Dómnefndarmenn eru allir nema tveir, stjórnendur og millistjórnendur fyrirtækja. Þeir nota bíla mikið í tengslum við vinnu sína og árleg akstursvegalengd hvers þeirra er 30-80 þúsund kílómetrar. Þeir tveir dómnefndarmanna sem ekki eru fyrirtækjastjórendur eru blaðamenn.
Að þessu sinni stóð val dómnefndarinnar um 11 bíla sem auk Renault Talisman voru Alfa Romeo Guilia, Audi A4, BMW 3 línan, Kia Optima, Skoda Superb, Ford Mondeo, Ford S-Max Jaguar XE, VW Passat, VW Tiguan. Eftir að hafa prófað bílana og borið þá saman í tvo daga, m.a. með aðstoð sjúkraþjálfara, og greitt um þá atkvæði varð ljóst að Renault Talisman hafði hreppt titilinn í ár.
Í rökstuðningi fyrir valinu segir dómnefndin m.a. að þessi bíll sé draumur sérhvers sölumanns og fyrirtaks fyrirtækisbíll. Hann geisli af frönskum sjarma, sé rúmgóður, þægilegur í akstri, vel og ríkulega búinn og fari vel með notandann sem þarf vinnu sinnar vegna að aka að meðaltali 50 þúsund kílómetra á ári. Fyrir þann sem svo mikið ekur skipti þægindi verulegu máli.