Bíll ársins í Danmörku 2012
Tímamótabíllinn Opel Ampera (Chevrolet Volt) hefur verið kjörinn bill ársins 2012 í Danmörku. Þetta er, eins og áður hefur komið fram hér, rafbíll með innbyggðri rafstöð. Bílinn er alltaf knúinn áfram af rafmagni og á þeim straum sem geymarnir rúma kemst bíllinn 83 kílómetra.
Þar sem dagleg not heimilisbíla eru sjaldan meiri en sem nemur 30-50 km akstri á dag, þá má segja að það dugi til allra algengustu notkunar að stinga bílnum í samband við raftengil að kvöldinu og láta hann hlaða sig næturlangt.
Hjá General Motors, framleiðanda bílsins er Opel Ampera skilgreindur sem rafbíll með bensínhjálparmótor. Í Danmörku, því hátollalandi á bíla, er hann hins vegar skilgreindur sem hver annar bensínbíll. Þar sem hann er talsvert dýr í framleiðslu verður mjög dýr þegar ofurhá skráningargjöld danska ríkisins leggjast ofan á verð hans frá verksmiðju.. Þegar bíllinn kemur á danskan markað eftir næstu áramót verður hann þannig afskaplega dýr í samanburði við flesta sambærilega bíla að notagildi og mun kosta hátt í 600 þúsund danskar krónur eða um 12,7 milljónir ísl. kr. Motor, félagsblað FDM í Danmörku, systurfélags FÍB, spáir því að árleg sala bílsins verði tæpast meiri en þetta 50-100 bílar á ári.
Það eru 18 bílablaðamenn sem velja bíl ársins í Danmörku, þar af tveir frá Motor. Lokaáfangar valsins fara fram á lokuðum aksturssvæðum FDM á Sjálandi og Jótlandi.