Bíll ársins í Danmörku er Citroën C4 Cactus
Síðdegis í gær var tilkynnt að Citroën C4 Cactus sé bíll ársins 2015 í Danmörku. Í blaðamannahópnum sem velur bíl ársins í Danmörku eru 21, þar af eru tveir frá FDM, systurfélagi FÍB. Sigur Citroën C4 Cactus var óvenju afgerandi því að blaðamennirnir gáfu honum samtals 148 stig. Sá sem hlaut annað sætið, VW Passat, hlaut 87 stig. Mun mjórra hefur verið á mununum mörg undanfarin ár milli efstu bíla en nú.
Mörgum þeim sem hafa kynnt sér þennan nýja bíl finnst sem með honum hafi hinn franski bílaframleiðandi snúið til baka til þess sem hann áður tíðkaði svo mjög, sem var að framleiða óvenjulega bíla sem voru í senn frumlegir í útliti og í tæknilegu tilliti en jafnframt þægilegir í notkun og umgengni og sparneytnir. Nægir þar að nefna bíla eins og gamla „braggann“ eða Citroën 2CV, Citroën Traction Avant og arftaka hans, Citroën DS og BS.
Citroën C4 Cactus er vissulega sérstakur og sker sig úr sambærilegum bílum þótt ekki geri hann það jafn afgerandi og framannefndir eldri Citroën bílar gerðu. Hann er talsvert óhefðbundinn í útliti og ýmsir hönnunarþættir koma fyrir í honum þar sem form og notagildi renna saman. Slíkt er nokkur nýjung og hefur varla sést áður. Meðal þessara þátta eru loftpokamotturnar (Airbumps) á hliðum bílsins sem skapa bílnum sérstakt yfirbragð en verja jafnframt hliðar hans fyrir ákomum eins og beyglum og rispum undan hurðum annarra bíla. En almennt séð hafa hönnuðirnir lagt megináherslu á einfaldleikann og að hafa bílinn sem léttastan þrátt fyrir mjög gott rými og mikið notagildi. En jafnframt hefur þung áhersla verið á að halda verðinu sem allra lægstu. Í þessum efnum er greinilega verið að svara kröfum vaxandi hóps bílakaupenda sem vilja hafa bílana eins einfalda og mögulegt er. En óhjákvæmilegt er að einfaldleikinn, léttleikinn og lága verðið verði að einhverju leyti á kostnað margskonar búnaðar, bæði öryggis- og þægindatækja.
Citroën C4 Cactus er fyrst og fremst hugsaður út frá notagildinu fyrir fjölskyldufólkið bæði í hinu daglega amstri en líka í fríum og á ferðalögum. Mjótt varð á munum milli bílanna í öðru og þriðja sæti, en þeir eru af þeim flokki sem Danir kalla fyrirtækjabíla (Firmabiler) og þykja henta vel sem bílar fyrir forstjóra og millistjórnendur fyrirtækja sem þurfa vinnu sinnar vegna að ferðast mikið. Hinn nýi VW Passat varð í öðru sætinu með 97 stig sem fyrr segir, en glæný kynslóð Ford Mondeo varð í því þriðja með 83 stig. Úrslitin urðu annars sem hér segir:
1. Citroën C4 Cactus 148 stig.2. VW Passat 87 stig.3. Ford Mondeo 83 stig.4. Opel Corsa 71 stig.5. Nissan Qashqai 53 stig.6. BMW 2-serie Active Tourer 42 stig.7. Mercedes-Benz C-klasse 41 stig.